Með hjartað í buxunum í allan dag

AFP

Stórmynd Baltasars Kormáks, Everest, hlaut mikið lófatak að frumsýningu lokinni á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Myndin var opnunarmynd hátíðarinnar og voru aðalleikarar kvikmyndarinnar viðstaddir frumsýninguna, en meðal aðalhlutverk í myndinni fara meðal annars þau Jake Gyllenhaal og Keira Knightley.

Baltasar var að vonum hæstánægður með viðbrögðin. „Það hreyfðist varla sála, það fór enginn á klósettið. Þá veit maður að fólk er að fylgjast með,“ segir Baltasar léttur í lund, og bætir við: „sérstaklega ef það er að fá sér,“ segir hann og hlær.

Dagurinn er búinn að vera mjög annríkur hjá Baltasar. Hann er búinn að vera í viðtölum látlaust frá því klukkan átta í morgun eftir svefnlitla nótt.

„Ég var að til klukkan þrjú í nótt. Það var komið með vitlaust „tape“ og þurfti ég að fljúga manni frá London með annað „tape“ í nótt sem ég þurfti að athuga hvort allt væri í lagi með,“ segir Baltasar.

Frétt mbl.is: Baltasar og Lilja ljómuðu á rauða dreglinum

Aðspurður hvernig það hafi verið að frumsýna svona stóra mynd, svarar Baltasar því snögglega til að hann hafi verið með hjartað í buxunum í allan dag. Viðstaddur frumsýninguna var m.a. forseti Ítalíu, Sergio Mattarella, en Baltasar til halds og trausts við frumsýninguna var Lilja Pálmadóttir, eiginkona hans.

Líkt og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld hafa viðbrögð gagnrýnenda við myndinni almennt verið góð. Á vefnum Rottentomatoes.com hlýtur myndin einkunina 75 prósent frá 12 gagnrýnendum og einkunnina 8,7 á IMDB frá 91 notenda. 

Baltasar segist hafa séð aðeins af gagnrýninni sem hann segist nokkuð ánægður með. Hann segir þá ánægðu vera mjög ánægða og að meira sé um jákvæða gagnrýni heldur en neikvæða gagnrýni.

Tók „nokkur jakkaföt“ með sér

„Auðvitað er maður spenntur að sjá hvernig viðbrögðin eru. En þetta er langt ferðalag, það getur verið misjafnt hvernig þetta leggst í þjóðir, og oft er gagnrýnin mjög hörð á svona hátíðum,“ segir Baltasar en hann mun ferðast víða ásamt Lilju eiginkonu sinni á næstu dögum til þess að vera viðstaddur frumsýningu myndarinnar. Heldur hann núna til Frakklands á Deauville kvikmyndahátíðina þar sem Everest verður opnunarmynd hátíðarinnar. Eins mun hann ferðast til London, Hollywood, Toronto og fleiri staða.

„Þannig að ég er með nokkur jakkaföt með mér,“ segir Baltasar að lokum.

Myndasería frá opnunarhátíð kvikmyndahátíðarinnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert