Fjallabyggð mun hugsanlega þurfa að greiða hátt í fjörtíu milljónir vegna tjónsins sem varð í síðustu viku á Siglufirði vegna tjóns sem fæst ekki bætt. Aðaltjónið varð vegna flóða Hvanneyrarár sem flæddi yfir bakka sína og fyllti fráveitukerfið á eyrinni. Viðlagatryggingar Íslands greiða ekki tjón á götum og vegræsum en tvær götur, Hávegur og Fossvegur fóru í sundur vegna flóðsins.
Viðlagatryggingar Íslands sendu frá sér minnisblað í gær þar sem kom fram að tjón á fasteignum og lausafé á Siglufirði falli undir bótaskyldu sjóðsins, sem og tjón á fráveitu sveitarfélagsins. Þá bætir sjóðurinn einnig kostnað sem vegna aðgerða sveitarfélagsins til að draga úr og afstýra tjóni.
Að sögn Gunnars I. Birgissonar, bæjarstjóra Fjallabyggðar, mun Ofanflóðasjóður bæta tjónið að einhverju leyti en þarf sveitarfélagið að greiða 40% tjónsins á móti sjóðnum sem greiðir 60%. Hann segir vinnubrögð Viðlagatrygginga Íslands, að senda út minnisblað vegna málsins, „minna á stjórnarfyrirkomulag í austantjaldslöndunum fyrir fall Sovétríkjanna“, þar sem gefin sé út tilskipun og svo „eigi menn bara að bukta sig og beygja.
Það var á fimmtudag sem fór að rigna hressilega á Siglufirði og vatnsmagnið náði hámarki um hádegi þann dag. Samkvæmt reglubundnum mælingum Veðurstofu Íslands var úrkoman kl. 12 þann dag nánast dæmalaus, það er 11,6 millimetrar á klukkustund sem jafngildir 11,6 lítrum á hvern fermetra lands.
Gunnar segir í samtali við mbl.is að starfsmenn bæjarins hafi lagt mikinn kraft í að bjarga holræsunum. „Ef ekki hefði náðst að bjarga þeim og þau hefðu verið full af leir hefðum við þurft að grafa upp göturnar fyrir tíu milljónir. En við fengum nú litlar þakkir fyrir þetta frá Viðlagatryggingu Íslands,“ segir hann.
Reiknað er með að kostnaður vegna gatnanna tveggja sem fóru í sundur í flóðinu sé um 15 milljónir. Bæjarstjórinn hefur bæði rætt við fulltrúa Viðlagatrygginga Íslands og Ofanflóðasjóðs og fékk þau skilaboð frá seinni sjóðnum að tjónin falli að einhverju leyti undir reglur hans en bærinn muni greiða 40% tjónsins á móti sjóðnum sem greiðir 60%.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og þingmaður norðausturkjördæmis, heimsótti Siglufjörð um helgina. Rætt var við hann á Bylgjunni á mánudag en þá sagði hann að Ofanflóðasjóður gæti hugsanlega komið að málunum.
„Þetta eru miklir peningar fyrir svona lítið sveitarfélag. Það er lítið í 101 en það er mikið hér. Það mjög þungt í okkur hljóðið hér í Fjallabyggð,“ segir Gunnar. Haft var eftir Huldu Ragnheiði Árnadóttur, framkvæmdastjóra Viðlagatrygginga, í Morgunblaðinu í dag að ekki hafi komið upp ágreiningur um bótaskyldu enn sem komið er en það skýrist eftir því sem vinnu miði áfram við endanlegt tjónamat. Um 30 tilkynningar um tjón á fasteignum og lausafé hafa borist til Viðlagatrygginga.
Viðlagatrygging Íslands kemur ekki til með að bæta tjón sem varð á Ísafirði og nágrenni í byrjun febrúar vegna flóða sem urðu í asahláku. Þá hefur bæjarstjóri fengið þau svör frá Ofanflóðasjóði að lítið þýði fyrir bæinn að sækja í sjóðinn.
„Við vildum meina að þetta hefði verið hamfaraflóð úr hlíðum fjallsins en þeir telja sig bundna af því að það sé árfarvegur sem flæðir upp úr,“ segir Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði. Hann segir bæinn enn verið að sækja málið og skiluðu lögfræðingar bæjarins nýlega svari við skýrslu sem verkfræðingar sjóðsins gáfu út vegna málsins.
„Við gerum enn kröfu um að sjóðurinn bæti okkur tjónið. Eftir því sem ég skil bæta þeir aðeins eignir sem eru með húseigendatryggingu og gervigrasið og fráveitulagningar eru auðvitað ekki með þannig,“ segir Gísli en bætir þó við að spurning sé hvaða svigrúm sjóðurinn hafi til að bæta tjónið.
„Þess vegna hef ég verið að segja það að þessi hugmynd sem forsætisráðherra reifaði, að finna farveg í gegnum Ofanfljóðasjóð hljómar ekki illa. Eða breyta hreinlega lögunum um Viðlagatryggingar Íslands. Ég óttast að jafnvel þó að við vinnum málið gegn þeim munum við samt ekki fá þær bætur sem við þurfum,“ segir Gísli. Upphæð tjónsins liggur ekki fyrir en telur Gísli að það gæti verið hátt í 100 milljónir.
„Það er alveg klárlega þannig að þetta eru náttúruhamfarir sem er greinilega enginn farvegur til að bæta. Annaðhvort þarf sér lög eða finna nýjar lausnir þannig að menn grípi ekki í tómt. Þetta er auðvitað sérstaklega bagalegt fyrir sveitarfélag eins og okkar sem er viðkvæmt fyrir, hafandi búið við fólksfækkun í langan tíma.“
Í minnisblaði um flóðin á Ísafirði sem Viðlagatrygginga lét taka saman, er vitnað í reglugerð um Viðlagatryggingu Íslands en þar segir:
„Vatnsflóð merkir flóð er verður þegar ár eða lækir flæða skyndilega yfir bakka sína eða flóðbylgjur frá sjó eða vötnum ganga á land og valda skemmdum eða eyðileggingu á vátryggðum munum. Árleg eða reglubundin flóð úr ám, lækjum, sjó eða vötnum teljast hér ekki vatnsflóð. Sama á við um venjulegt leysingavatn eða flóð, sem að einhverju eða öllu leyti verður af mannavöldum, t.d. þegar vatnsgeymar, stíflugarðar eða önnur mannvirki bresta af öðrum ástæðum en náttúruhamförum.“
Í minnisblaðinu segir einnig að í flóðunum á Ísafirði hafi ár eða lækir ekki flætt yfir bakka sína, heldur hafi gríðarlegt magn leysingavatns streymt fram í kjölfar mikilla rigningar og hláku og þar sem fráveitukerfið var ekki í stakk búið að taka við vatninu, hafi það flætt um götur og inn í hús. Í ljósi þessa var það mat sérfræðingahóps sem skrifaði minnisblaðið að bótaskylda Viðlagatryggingar nái ekki til þeirra tjóna sem urðu af völdum asahlákunnar 8. febrúar.