Fimmtán tonn af drullu á lóðinni

Hólavegur á Siglufirði fór í sundur síðastliðinn föstudag.
Hólavegur á Siglufirði fór í sundur síðastliðinn föstudag. Björn Valdimarsson

Fimmtán tonn af drullu og möl söfnuðust saman á lóð við íbúðarhúsnæði að Suðurgötu 54 á Siglufirði þegar skriða féll þar síðastliðinn föstudag. Starfsmenn bæjarins luku við hreinsun á lóðinni í gær og gerir bæjarverkstjóri ráð fyrir að hún verði orðin græn og fín næsta sumar. Framundan er vinna við að koma götunum Hólavegi og Fossvegi í samt lag.

„Það er að róast yfir þessu hjá okkur. Við erum búnir að hreinsa bæinn að mestum hluta, hreinsa fráveitukerfið, það er allt saman komið. Það komu um fimmtán til tuttugu tonn upp úr því,“ segir Birgir Ingimarsson, bæjarverkstjóri á Siglufirði. Starfsmenn bæjarins hafa staðið vaktina síðustu viku og unnið til átta eða níu á kvöldin alla daga.

Birgir telur að allt að þrjár vikur muni taka að ganga frá götunum og gangstéttum við þær að fullu. Hafist verður handa við verkið í dag. „Þetta eru ekki aðalgötur en þetta tengir saman götur. Þetta reddast alveg, það er eðlilegt að hafa þetta í lagi,“ segir Birgir.

Fengu mann til að skafa ofan af lóðinni

Ekki varð tjón á lóðinni við Suðurgötu 54 en hún er þó ekki geðsleg að sögn Birgis. „Þegar skriða kemur með svona miklu vatnsmagni ber hún leirinn hún leirinn og mölina með sér og þetta sest bara á leiðinni,“ segir hann. Á lóðinni, sem er stölluð, eru þrír sléttir grasbalar og safnaðist þykkt lag þar ofan á.

„Við fengum góðan gröfumann til að skafa ofan af þessu og svo voru mínir menn með hrífur að reyna að taka það mesta af þessu. Svo jafnar þetta sig og í raun og veru er ekki tjón á lóðinni sjálfri fyrir utan það að hún er ógeðsleg. Hún jafnar sig, verður orðin græn og fín næsta sumar,“ segir Birgir.  

Veðrið hefur verið ágætt á Siglufirði eftir að stytti upp síðustu helgi. Birgir segir að veðrið hafi verið starfsmönnum bæjarins hliðhollt. „Úrhellið var svo mikið að það skilaði sér strax ofan í holræsakerfið líka. Rigningin var svo mikil og svo lengi eftir að við náðum tökum á þessu að þetta voru náttúruleg þrif,“ segir Birgir.

Starfsmenn bæjarins við hreinsunarstörf.
Starfsmenn bæjarins við hreinsunarstörf. Ljósmynd/Björn Valdimarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert