Rektor á bíl frá HHÍ

Kristín Ingólfsdóttir, fráfarandi rektor, afhendir Jóni Atla tákn rektorsembættisins við …
Kristín Ingólfsdóttir, fráfarandi rektor, afhendir Jóni Atla tákn rektorsembættisins við athöfn í hátíðarsal Háskóla Íslands í sumar mbl.is/Kristinn

Rektor Háskóla Íslands hefur bifreið til afnota frá Happdrætti Háskóla Íslands sem er stofnun í B-hluta ríkissjóðs, segir í svari fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssonar við fyrirspurn frá Brynhildi Pétursdóttur um bifreiðahlunnindi ríkisstarfsmanna. Forstjóri Byggðastofnunar nýtur bifreiðahlunninda sem nema 181.499 kr. á mánuði, segir í sama svari.

Í flestum tilvikum þá njóta starfsmenn í ráðuneytunum ekki bifreiðahlunninda, segir í svarinu en hjá Sam­göngustofu var einn starfsmaður sem naut bifreiðahlunninda. Sá samningur var felldur úr gildi í ársbyrjun. Samningurinn var tilkominn vegna eldri ráðningarsamnings starfsmanns við Skráningarstofuna ohf. Að öðru leyti hafa engir starfsmenn ráðuneytisins né stofnana þess notið bifreiðahlunninda sl. tvö ár.

Tíu starfsmenn Isavia nutu bifreiðahlunninda

Alls nutu tíu starfsmenn Isavia bifreiðahlunninda sl. tvö ár. Átta af þessum tíu starfsmönnum nutu takmarkaðra hlunninda og greiddu af þeim tekjuskatt. Í takmörkuðum afnotum felst að þeim voru einungis heimil afnot af bifreið til aksturs á milli heimilis og vinnustaðar og til einstakra tilfallandi afnota. Verðmæti hlunninda, þegar um þessi afmörkuðu afnot er að ræða, miðast við vegalengd á milli heimilis og vinnustaðar. Matsverð hlunninda er fundið með því að kílómetrafjöldi er margfaldaður með kílómetragjaldi. Matsverð takmarkaðra bifreiðahlunninda þessara starfsmanna er 892.667 kr.

Tveir starfsmenn Isavia nutu fullra bifreiðahlunninda og greiddu af þeim tekjuskatt í samræmi við gildandi reglur. Enginn starfsmaður Isavia er með aksturssamning við félagið. Meginþorri starfsmanna er með fastan bifreiðastyrk sem hluta að sínum heildarkjörum, flestir samkvæmt kjarasamningi en aðrir samkvæmt persónubundnum ráðningarsamningi. Á árinu 2014 fengu 699 starfsmenn bifreiðastyrk en 641 á árinu 2013.

Bara fyrrverandi forstjóri ekki núverandi

Einn starfsmaður stofnunar sem heyrir undir fjármálaráðuneytið hefur notið bifreiðahlunninda um tíma sl. tvö ár, fyrrum forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins, samkvæmt ráðningarkjörum hans frá þeim tíma sem hann var ráðinn til starfsins. Núverandi forstjóri nýtur engra slíkra bifreiðahlunninda.

Á sl. tveimur árum (2013–2014) hefur Landsvirkjun látið fjórum starfsmönnum í té bifreiðar sem þeir hafa full og ótakmörkuð umráð yfir og metin eru starfsmanni til tekna. Matsverð hlunninda er í samræmi við ákvörðun ríkisskattstjóra. Í dag falla tveir starfsmenn undir þetta fyrirkomulag.

Hér er hægt að lesa sundurliðun á bifreiðahlunnindum sem tiltekin eru í svari fjármálaráðherra. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert