Fellt hefur verið niður sakamál á hendur Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja, og þremur öðrum lykilstarfsmönnum fyrirtækisins vegna gruns um brot gegn lögum um gjaldeyrishöft. Þetta staðfestir Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, í samtali við mbl.is.
Forsaga málsins er sú að húsleit var gerð á skrifstofum Samherja á Akureyri og í Reykjavík í mars árið 2012 að kröfu Seðlabanka Íslands og hald lagt á mikið magn gagna. Í kjölfarið var fyrirtækið kært fyrir meint brot á lögum um gjaldeyrishöft. Leggja þurfti hins vegar fram nýja kæru þar sem ekki reyndist refsiheimild fyrir hendi vegna lögaðila. Lagði Seðlabankinn því fram kæru á hendur Þorsteini Má og þremur öðrum lykilstarfsmönnum. Málið hefur nú verið fellt niður sem fyrr segir.
Ólafur Þór segir að eftir standi hvort Seðlabankinn telji tilefni til þess að ákvarða stjórnvaldssekt vegna málsins. Þá geti þeir sem hlut eiga að máli kært niðurstöðu sérstaks saksóknara til embættis ríkissaksóknara sem taki ákvörðun um það hvort málið skuli tekið fyrir að nýju eða staðfesti ákvörðunina.