„Meiri samkennd en sýnist á Íslandi“

Óttarr Proppé er nýr formaður Bjartrar Framtíðar.
Óttarr Proppé er nýr formaður Bjartrar Framtíðar.

Óttarr Proppé er nýr formaður Bjartrar framtíðar en hann var sjálfkjörinn á ársfundi flokksins í dag. Þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Óttarri bar hann sig auðmjúklega og augljóst að honum þykir mikill heiður að fá að gegna embættinu en hann ætlar að leggja áherslu á að gildi flokksins komi skýrar fram.

„Ég vil leggja áherslu á að okkar gildi og grunnhugsun verði skýrari, þar með er ég ekki að segja að ég upplifi að við höfum ekki verið að starfa í anda hennar heldur kannski þurfum við að vera skýrari þegar við höfum verið að gera það. Ég og aðrir í forystunni þurfum líka að hjálpa þessari þróun áfram að koma mönnum betur saman, að auka samtalið og stytta boðleiðirnar í samtalinu. Við þurfum að skýra fyrir almenningi, sem er kannski ekki að átta sig almennilega á okkur, fyrir hvað við stöndum,“ segir Óttarr og bætir við:

„Þessi áhersla okkar á að starfa öðruvísi í pólitík, okkur er alvara með henni en við höfum kannski tekið henni full alvarlega í okkar störfum og leyft öðrum að skilgreina okkur.“

Aðspurður um hvernig hann sjái fyrir sér að flokkurinn þróist og þroskist undir hans stjórn segir Óttarr að hann líti alls ekki á sig sem eina stjórnandann og það sé mikilvægt að starfa eftir því. Að í stjórnunarteyminu séu meðal annars tveir formenn, þingflokksformaður og forystumenn í sveitarstjórnum. Hann segir að hlutverk flokksins sé að virkja almenning, ekki bara rétt fyrir kosningar, til þess að taka þátt í stjórnmálum þó enginn verði neyddur til þess. Almenningi þurfi þó að líða eins og hann sé velkominn í heim stjórnmálanna. 

Alltaf skýrara að vera algjörlega með eða algjörlega á móti

Hann segir ennfremur að flokkurinn hafi lagt áherslu á samvinnu í stað þess að tefja mál. „Við höfum lagt áherslu á að vinna með fólki en ekki látið okkur dreyma um að þeir sem við erum ekki sammála hverfi einhvernvegin og hætti að vera til. Við höfum frekar lagt áherslu á að vinna með þeim og sú áhersla er ef til vill ekki jafn skýr eins og hitt; það er alltaf skýrara að vera algjörlega með eða algjörlega á móti heldur en að vilja setjast niður og finna út úr málunum,“ segir Óttarr.

Óttarr segir að í grunninn sé miklu meiri samkennd í íslenskri pólitík heldur en oft líti út fyrir að vera og það hafi sést mjög vel yfir helgina þegar kemur að málefnum flóttamanna. „Þessi litla þjóð hún er mjög sammála um marga hluti,“ segir hann og tekur fram að það sé eitt af lykilhlutverkum Bjartrar Framtíðar að leiða saman ólíka einstaklinga og skoðanir til þess að gera gagn.

Róbert Marshall, þingmaður, flutti tillöguna um nýja umhverfisstefnu Bjartrar Framtíðar.
Róbert Marshall, þingmaður, flutti tillöguna um nýja umhverfisstefnu Bjartrar Framtíðar.
Guðmundur Steingrímsson ávarpar ársfund Bjartrar framtíðar í dag.
Guðmundur Steingrímsson ávarpar ársfund Bjartrar framtíðar í dag. Ljósmynd/Víkurfréttir / Hilmar Bragi
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka