Í dag hefst aðalmeðferð í Marple-málinu svokallaða, en um er að ræða þriðja stóra dómsmálið sem sérstakur saksóknari rekur gegn fyrrum stjórnendum Kaupþings. Talið er að vitnaleiðslur muni standa fram vikuna og málsmeðferð verði hálfa næstu viku, jafnvel lengur. Í fyrri Kaupþings-málunum var ákært fyrir markaðsmisnotkun og umboðssvik, en í þessu máli eru aðalgerendur ákærðir fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Auk þess eru meintir samverkamenn ákærðir fyrir hlutdeild í fjárdrætti, hylmingu og til vara peningaþvott. Allir ákærðu hafa neitað sök í málinu.
Í ákæru sérstaks saksóknara eru þau Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri bankans, sögð hafa skipulagt og framkvæmt fjárdrátt og umboðssvik með því að hafa fært um 8 milljarða úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding S.A. SPF. Félagið er skráð í Lúxemborg, en það er í eigu fjárfestisins Skúla Þorvaldssonar. Var Skúli einn af stærstu viðskiptavinum bankans fyrir fall bankans og í stóra markaðsmisnotkunarmálinu var meðal annars ákært fyrir lánveitingar til félags í hans eigu. Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, er í málinu ákærður fyrir hlutdeild í fjárdrætti og umboðssvikum, meðan Skúli er ákærður fyrir hylmingu.
Ákæran skiptist í þrjá meginkafla, en í fyrstu tveimur köflunum er ákært fyrir fjárdrátt þar sem tvær millifærslur eru gerðar frá Kaupþingi á reikning Kaupþings í Lúxemborg og þaðan til Marple. Í þriðja kaflanum er ákært fyrir umboðssvik, en þar er ákærðu gert að sök að hafa í nafni Kaupþings keypt skuldabréf, útgefin af Kaupþingi, af Marple á verði sem var langt yfir markaðsvirði bréfanna og þar með ollið bankanum fjártjóni sem nemur á bilinu 1,8 til 2,1 milljarðs.
Í fjárdráttarliðunum ákærunnar segir að fjármunir hafi verið millifærðir „án þess að lögmætar viðskiptalegar ástæður lægju þar að baki“ og að í „öllum tilvikum röskuðu ákærðu fjárskiptagrundvellinum með ólögmætri tilfærslu fjármuna frá Kaupþingi hf. til Marple og ollu ákærðu Kaupþingi hf. tjóni.“ Eru ákærðu sökuð um að hafa klætt „einhliða fjármunafærslur í búning tvíhliða viðskipta milli Kaupþings hf. og Marple.“
Þá eru hin ákærðu sökuð um að hafa útbúið gögn vegna „hinna tilbúnu viðskipta“ eftir á með „þann eina tilgang að leyna hinu rétta eðli fjármunafærslnanna og fela þannig auðgunarbrotin.“ Segir meðal annars í röksemd með ákærunni að uppgjörsskjal vegna einnar millifærslu til Marple hafi verið „efnislega rangt og hreinn tilbúningur.“ Þá hafi engin ytri eða innri fylgiskjöl fylgt með og telur sérstakur saksóknari það styðja að enginn viðskiptalegur grundvöllur hafi verið að baki tilfærslu fjármunanna.
Í báðum köflunum er Guðný Arna sögð hafa, að undirlagi Hreiðars Má og í samráði við Magnús, millifært rúmlega þrjá milljarða í hvort skiptið á reikning Kaupþings í Lúxemborg, þaðan sem þeir voru millifærðir á reikning Marple. Magnús var umsjónarmaður Marple og í ákærunni segir að hann hafi því verið nauðsynlegur hlekkur í þessum gjörningi. Skúli er svo sagður hafa auðgast á þessu, sem eigandi Marple og að hann hafi tekið þátt í að hylma brotinu, enda átt að vera ljóst um millifærslurnar.
Þriðji kafli ákærunnar fjallar um meint umboðssvik, en þar er Hreiðari Má og Guðnýju Örnu gefið að sök að hafa í sameiningu látið Kaupþing kaupa skuldabréf, sem bankinn hafði sjálfur gefið út, af Marple. Áður hafði Kaupþing í Lúxemborg keypt bréfin „með verulegum afföllum“ og selt Marple þau áfram á því verði. Frá upphafi hafi hins vegar verið búið að ákveða að Kaupþing væri sjálft endanlegur kaupandi bréfanna og hafi því keypt þau áfram af Marple, en á yfirverði sem færði Marple „óréttmætan ávinning“ upp á 1,8 til 2,1 milljarð. Í þessum hluta er Magnús ákærður fyrir hlutdeild að umboðssvikum, en í ákærunni er hann sagður hafa látið sjálfur framkvæma þann hluta viðskiptanna sem fór fram hjá Kaupþingi í Lúxemborg, þ.e. gefið undirmönnum fyrirmæli um að bréfin skyldu seld áfram á sama verði og þau voru keypt inn áður.
Í þessum kafla er Skúli einnig ákærður fyrir hylmingu með því að „halda ólöglega mismuninum sem varð eftir hjá Marple“ og „taka þátt í ávinningnum af auðgunarbroti.“ Til vara er hann ákærður fyrir peningaþvætti með að hafa sem eigandi Marple tekið við og geymt ávinning af auðgunarbroti.
Við rannsókn málsins var farið fram á að eignir Skúla og félaga í hans eigu í Lúxemborg yrðu gerðar upptækar eða frystar. Segir í ákærunni að unnt hafi verið að rekja slóð hluta af ávinningi brotanna frá Marple til annarra félaga í eigu Skúla, en í ákærunni er hann sagður hafa byggt „um sig flókið félaganet í Lúxemborg og víðar,“ þar sem hann var eigandi.
Í júní 2011 var lagt hald á 44,3 milljónir evra hjá félögum Skúla, en það nam um 6,85 milljörðum króna á haldlagningardag og um 7,2 milljörðum síðast þegar virði eignanna var metið. Eru fjármunirnir í félögunum Legatum Ltd, BM Trust S.A. SPF, Holt Holding S.A. og SKLux S.A., auk eigna hjá Marple og innistæðna á reikningum í nafni Skúla sjálfs.
Af hálfu slitabús Kaupþings er í ákærunni gerð krafa á Guðnýju Örnu, Hreiðar Má, Magnús og Skúla um greiðslu á 6,1 milljarði íslenskra króna, 15,6 milljónum evra og 3,5 milljónum Bandaríkjadölum. Miðað við gengi dagsins í dag eru kröfurnar í evrum og dölum upp á rúmlega 2,7 milljarða og er heildarkrafan því upp á 8,8 milljarða, auk vaxta.
Eins og fyrr segir er þetta þriðja stóra mál sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi stjórnendum Kaupþings sem er tekið til aðalmeðferðar hjá dómstólum eftir fall bankans. Áður höfðu þeir Hreiðar Már, Magnús, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður bankans og Ólafur Ólafsson, stór hluthafi í bankanum, verið sakfelldir fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun í tengslum við sölu á 5,01% hlut í bankanum til Mohammeds Al Thanis, sjeiks frá Katar rétt fyrir fall bankans. Eftir hrun var upplýst að Kaupþing hafði lánað fyrir kaupunum. Dómur yfir þeim var staðfestur eða þyngdur í Hæstarétti í febrúar á þessu ári. Hreiðar Már var dæmdur fimm og hálfs árs fangelsi og Sigurður í fjögurra ára fangelsi. Ólafur hlaut fjögurra og hálfs árs dóm og sömuleiðis Magnús.
Í júní á þessu ári voru svo sjö Kaupþingsmenn sakfelldir í héraðsdómi fyrir þátttöku sína í stóra markaðsmisnotkunarmálinu svokallaða. Þar sem sumir hinna ákærðu höfðu hlotið dóma í Al-Thani málinu þurfti brotið að teljast alvarlegra en áður til að lengja dóm viðkomandi. Hreiðar Már var fundinn sekur, en dómur yfir honum var ekki lengdur. Sigurður var einnig fundinn sekur og fangelsisdómur hans lengdur um eitt ár. Ingólfur Helgason, fyrrum forstjóri Kaupþings á Íslandi, var í málinu fundinn sekur og dæmdur í 4,5 ára fangelsi. Bjarki Diego, fyrrverandi framkvæmdastjóri útlána hjá bankanum, fékk tveggja ára og sex mánaða fangelsisdóm. Birnir Sær Björnsson og Pétur Kristinn Guðmarsson, starfsmenn eigin viðskipta Kaupþings, voru dæmdir í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í málinu var ákæruliðum gegn Magnúsi vísað frá eða hann sýknaður og Björk Þórarinsdóttir, fyrrverandi fulltrúi í lánanefnd var þá einnig sýknuð.
Fjórða málið er síðan hið svokallaða Chesterfield-mál, en ekki hefur enn verið réttað í málinu. Þar er ákært fyrir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Management Group S.A. og eignarhaldsfélaga þeirra, samanlagt 510 milljónir evra haustið 2008. Það jafngilti nærri 70 milljörðum króna miðað við gengi evru 7. október 2008. Sérstakur saksóknari telur að féð sé allt tapað Kaupþingi. Hreiðar Már, Sigurður og Magnús hafa allir neitað sök í málinu.