Sakaður um rán án „mótívs“

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings.
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings. mbl.is/Þórður

Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings hélt mikla inngangsræðu áður en yfirheyrslur yfir honum hófust í Marple-málinu í héraðsdómi í dag. Ræðan var rúmlega hálftími að lengd, en þar sakaði Hreiðar sérstakan saksóknara meðal annars um að hafa spunnið upp ástæður fyrir ákærunni á sínar hendur. Þá ítrekaði hann sakleysi sitt, meðal annars í ljósi þess að hann sagði Kaupþing ekki hafa tapað á viðskiptunum og að fáránlegt væri að hann væri að reyna að láta þriðja aðila hagnast á viðskiptum við Kaupþing, þegar hann hafði sjálfur hag af því að Kaupþingi gengi vel.

Sami dómari og dæmi í Al-Thani málinu

Hreiðar hefur áður verið dæmdur í héraðsdómi og Hæstarétti í Al-thani málinu og í markaðsmisnotkunarmálinu í héraðsdómi. Benti hann á að núna væri hann fyrir dómi þar sem dómarinn væri sá sami og í Al-Thani málinu, Símon Sigvaldason. Sagði hann að núna sæti hann fyrir framan sama dómara og dæmi hann fyrir að hafa logið fyrir dómi áður með að dæma orð hans ótæk. Sagði Hreiðar að hann hafi samt ekki logið fyrir dómi og því væri dómarinn að ljúga til að dæma hann sekan og sé sá sami dómari að dæma Marple-málið.

Hreiðar fór einnig yfir fleiri atriði sem hann taldi athugaverð varðandi Al-Thani málið, en áður hefur meðal annars verið rætt um að einn dómarinn í málinu hafi verið faðir Kolbeins Árnasonar, fyrrverandi yfirmanns á lögfræðisviði bankans. Hreiðar sagði að sá sem hafi tekið við starfinu og unnið hjá slitabúi Kaupþings einnig vera son dómara í málinu, en Þorgeir Örlygsson, Hæstaréttadómari, er faðir Þórarins Þorgeirssonar, sem tók við af Kolbeini.

Segir saksóknara brjóta lög

Eins og í stóra markaðsmisnotkunarmálinu gagnrýndi Hreiðar að hann væri sóttur til saka í fjórum mismunandi málum í stað þess að saksóknari tæki þau saman í eitt mál. Sagði hann þetta valda töfum og óþægindum og að málsmeðferð hafi tekið á sjöunda ár. Benti hann á 143. grein sakamálalaga og spurði til hvers hún væri í lögum ef sérstakur saksóknari færi svo ekki eftir henni. Sagði hann þetta reyndar ekki í fyrsta skipti sem saksóknari bryti lög, en embættið hafi verið stofnað til að sefa reiði almennings og að í þessu máli hafi verið reitt svo hátt til höggs að ekki hafi verið hægt að bakka úr málinu, jafnvel þótt hann teldi sýnt að ekkert brot hafi átt sér stað, eða að Kaupþing hafi tapað á málinu.

Ekkert „mótív“ til að ræna peningum

Bæði í inngangsræðu sinni og við yfirheyrslu sérstaks saksóknara ítrekaði Hreiðar það margoft að hann hefði ekki haft neitt tilefni til þess að stunda fjárdrátt, eins og honum er gefið að sök. Sagði hann ásakanirnar fáránlegar um að hann hafi rænt Kaupþing eða ætlað að valda bankanum skaða. „Getur ákæruvaldið sakað fólk um að ræna pening þegar það er ekkert mótív,“ sagði Hreiðar, en hann sagðist sjálfur hafa átt mikið undir góðu gengi bankans og því væri ekkert tilefni til að hann reyndi að láta þriðja aðila hagnast með fjárdrætti frá bankanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert