„Það er ekki þannig að einhver nútímakona geti skellt sér í þennan búning, hann er það lítill,“ segir Oddný Kristjánsdóttir, klæðskeri og þjóðbúningasérfræðingur hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands. Upphlut í eigu félagsins var stolið af sýningu í Ráðhúsi Reykjavíkur um helgina en um töluvert tjón er að ræða fyrir félagið.
Um er að ræða sýningu sem sett var upp í tilefni af því að í ár eru 100 ár liðin frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt og átti búningurinn að svipa til þeirra sem konur klæddust um þetta leyti.
Sýningin var opnuð á fimmtudaginn og útvegaði Heimilisiðnaðarfélagið tvo búninga; þjóðbúning og upphlut. Búningarnir voru báðir á gínum sem komið var fyrir á flygli í sal í ráðhúsinu.
Þjófurinn tók aðra gínuna niður af flyglinum, fór afsíðis með hana í geymslu sem er staðsett undir kaffihúsi í Ráðhúsinu og klæddi gínuna úr upphlutnum. Því næst gekk hann út með upphlutinn og skildi gínuna eftir í geymslunni.
Margrét Valdimarsdóttir, formaður félagsins, segir að töluvert tjón sé að ræða fyrir félagið. Annars vegar felast nokkur verðmæti í búninginum sjálfum sem hægt hefði verið að selja og þá kosti einnig töluvert að gera annan búning.
Félagið deildi mynd af búningnum á Facebook og er fólk hvatt til að hafa augun opin ef þjófurinn eða aðrir muni hugsanlega bjóða hann til sölu. Margrét bendir á að búningur sem þessi sé ekki auðseljanlegur, þau sem hafi áhuga á þjóðbúningum séu ekki mörg, þjóðbúningaheimurinn sé ekki stór.
„Okkur þykir þetta afskaplega leitt og með algjörum ólíkindum. Það á eftir að vinna úr þessu máli, þetta er í höndum lögreglunnar,“ segir Margrét.
Oddný segir að búningurinn sé í stíl áranna 1910 til 1920. Hann er kominn til ára sinna og er ekki mikill glampi af efninu. „Maður vonaði að búningurinn myndi ekki lokka svona mikið,“ segir hún.
Heimilisiðnaðarfélagið á nokkra búninga en flestir þeirra eru í stærðum sem henti nútímafólki Þeir eru þó ekki notaðar við sýningar sem þessar heldur notar félagið litlar, gamlar flíkur sem félagið á, hefur fengið gefins eða keypt í gegnum tíðina.
„Hugmyndin var að velja búning sem sæti vel á þessum litlu gínum. Það er ekki þannig að einhver nútímakona geti smellt sér í þennan búning, hann er það lítill,“ segir Oddný. Pilsið sem fylgir búningnum er líklega hátt í áttatíu ára en upphluturinn er dálítið yngri.