Samningar sem finnast ekki, deilur um eignarhald á félagi sem er miðpunktur dómsmáls, skjalageymsla á skrifstofu forstjóra sem virðist hafa horfið, gagnrýni á framkvæmd rannsóknar og stóra spurningin um hver hagnaðist á öllu saman. Þetta er meðal þess sem komið hefur fram á fyrsta degi aðalmeðferðar í Marple-málinu svokallaða, þar sem þrír stjórnendur hjá Kaupþingi og stór viðskiptavinur bankans eru ákærðir fyrir fjárdrátt, umboðssvik og hylmingu.
Eins og mbl.is hefur greint frá skiptist málið upp í þrjá kafla, en í fyrri tveimur er ákært fyrir fjárdrátt og ákærðu sögð hafa komið fjármunum yfir á félagið Marple án þess að viðskiptalegar forsendur væru á bak við fjármagnsflutninga, samtals að upphæð rúmlega 6 milljarðar. Í þriðja hlutanum er svo ákært fyrir umboðssvik, en ákæruvaldið telur að bankinn hafi komið um 2 milljarða hagnaði yfir í Marple með fléttu við að kaupa skuldabréf í bankanum sjálfum á yfirverði.
Fyrst til að bera vitni var Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþing samstæðunnar. Hún er ásamt Hreiðari Má Sigurðssyni, fyrrum forstjóra bankans, ákærð fyrir fulla aðild að meintum fjárdrætti. Hún var meðal annars spurð um þær greiðslur sem ákært er fyrir í fyrri liðunum tveimur. Erfiðlega hefur gengið að finna bókhaldsgögn sem skýra þessa millifærslur og hvort um raunverulegan samning væri að ræða. Guðný Arna sagði að Hreiðar hefði kallað sig inn á skrifstofu sína þegar hann óskaði eftir að millifærslan væri gerð, en hún átti fyrst að fara til Kaupþings í Lúxemborg. Sagði Guðný Arna að hún vissi ekki af hverju samningurinn hefði ekki skilað sér í bókhaldið, en að hún hefði séð hann í höndum Hreiðars.
Í samningnum segir hún að allar tölulegar upplýsingar hafi verið, en upp úr því sagði hún að unnin hafi verið staðfesting á greiðslunum, sem voru meðal fárra gagna sem saksóknari hafði fundið í tengslum við þessar greiðslur og ástæðuna á bak við þær. Hreiðar Már tók undir þetta með Guðnýju og sagði að oft hefðu samningar sem þessir ekki farið í venjulegt bókhald, heldur sem fylgiskjöl í fjárhagsbókhald. Skjalið hafi þó ekki heldur fundist þar. Þá sagði hann mjög líklegt að það hafi verið í skjalasafni sem hann geymdi á skrifstofu sinni í Kaupþingi á sínum tíma. Skrifstofan var aftur á móti tæmd eftir fall bankans og breytt í fundarsal og sagðist Hreiðar ekki vita hvar dótið þar inni hafi endað, hann hafi allavega ekki tekið saman dót á skrifstofunni. Sagðist Hreiðar hafa geymt mikið af samningum fyrir bankann á skrifstofunni, meðal annars þegar um stór viðskipti var að ræða.
Guðný Arna var einnig spurð um mismun sem myndaðist á uppgjörsblaði sem var gert vegna annarrar færslunnar. Sagði saksóknari að mismunur væri á upphæð miðað við gengi dagsins og því sem kom fram í skjalinu og í ákæru kemur fram að það geti þýtt að skjalið hafi verið útbúið eftir á, til að „leyna hinu rétta eðli viðskiptanna.“ Guðný gat ekki svarað til um af hverju það stafaði, en saksóknari benti meðal annars á breytingasögu skjalsins sem gefur í skyn að það hafi verið búið til tveimur mánuðum eftir að millifærslan var gerð.
Þar sem enginn samningur finnst segir saksóknari að færslurnar hafi verið til þess gerðar að draga fé fyrir félagið Marple, en það var í eigu fjárfestisins Skúla Þorvaldssonar (það eignarhald er reyndar meðal þess sem dregið er í efa í málinu). Fóru þær frá Kaupþingi hf. til Kaupþings í Lúxemborg og þaðan til Marple.
Hreiðar og Magnús bentu í dag aftur á móti á að samningarnir hefðu verið gerðir og væru afleiðusamningur og gjaldmiðlaskiptasamningur sem Marple hafi gert til að verja stöðu sína vegna mögulegrar lækkunar á bréfum í Exista sem félagið átti. Sögðu þeir báðir að það hafi verið hagur Kaupþings að gera slíka samninga og því sé ekki um neitt saknæmt að ræða. Marple skuldaði meðal annars Kaupþingi háar upphæðir vegna kaupa á bréfum í Exista, en Exista var stór eigandi í Kaupþingi. Skyldu bréf Exista því lækka myndi það koma illa við Marple sem kæmi sér illa fyrir Kaupþing. Benti Magnús einnig á að allar eignir Marple hefðu verið settar sem trygging fyrir skuldum félagsins og í raun hafi bankinn stjórnað félaginu, enda verið með öll stjórnarsæti í Marple.
Málið myndi leysast af sjálfu sér, að sögn Hreiðars Más, ef saksóknari myndi finna þetta skjal og sagði hann saksóknara hafa verið latan að gera ekki húsleit á skrifstofu sinni í Kaupþingi, eða hvar sem þau gögn væru nú niðurkomin. Við réttarhöldin í dag kom ekkert fram sem gæti upplýst þetta meinta hvarf skjalasafnsins.
Bæði Hreiðar og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, nýttu sér rétt sinn til að ávarpa réttinn og gerðu það í löngu máli. Gagnrýndu þeir saksóknara og dómsvaldið harðlega, meðal annars að sami dómari væri að dæma þetta mál og Al-Thani málið, að öll málin væru ekki dæmd saman og þá sagði Hreiðar að nýlega hefði hann komist að því að tveir dómarar sem tengdust Al-Thani málinu hefu verið persónulega tengdir Kaupþingi gegnum syni sína.
Enn á eftir að yfirheyra einn hinna ákærðu, Skúla, en yfirheyrslur yfir honum hefjast á morgun. Þegar verjandi hans fékk þó tækifæri til að spyrja ákærðu og eitt vitni spurninga í dag nýtti hann tímann til að sýna fram á að svo virtist vera að Skúli hafi í raun aldrei verið raunverulegur eigandi Marple, heldur hafi það verið Kaupþing. Benti hann því til stuðnings á að í fyrirtækjaskrá í Lúxemborg væri gerð krafa um að raunverulegur eigandi væri skráður, en árið 2007 var til að mynda Kaupþing eitt skráð þar á hluthafalista Marple. Sagði verjandi Skúla að samkvæmt lögum í Lúxemborg væri bannað að koma fram fyrir raunverulegan eiganda og því þýddi þetta að Skúli væri ekki eigandi félagsins. Benti hann einnig á að Skúli hefði aldrei undirritað sína hlið afsals á félaginu, þegar hann hafði óskað eftir að kaupa nýtt félag í Lúxemborg. Slíkt væri krafa þar í landi, auk þess sem hann hafði aldrei greitt stofnfjárgreiðslu fyrir nýtt félag og því gæti hann hreinlega ekki verið eigandi þess. Gangi honum að sýna dómara fram á að Skúli tengist félaginu ekkert í raun er erfitt að sjá að hægt sé að ákæra hann í málinu.
Að lokum var nokkuð gegnumgangandi röksemdafærsla hjá þeim Hreiðari Má og Magnúsi að saksóknari hefði ekki sýnt fram á með neinum rökstuðningi að neinn hefði hagnast á meintum fjárdrætti og umboðssvikum til Marple. Sögðu þeir reyndar að þetta hefði alltaf komið Kaupþingi vel og meðal annars hafi slitabú Kaupþings ekki viljað rifta þeim gjörningum sem gerðir voru við Marple, einfaldlega vegna þess að það hefði komið verr út fyrir bankann.
Hreiðar benti meðal annars á að hann hafi átt mikið undir því að bankinn gengi vel og það væri engin ástæða fyrir hann að hafa viljað auðga þriðja aðila. Sagðist hann kalla eftir skýringum frá saksóknara hvers vegna hann hefði átt að framkvæma þennan gjörning, hvar hagnaður eða ávinningur hans af því væri. Sagði hann að í raun hefðu viðskiptin orðið til þess að minnka bæði skuldir Kaupþings og Marple með skuldajöfnun og það hafi komið báðum til góða. Stóra spurningin í málinu verður því væntanlega hvort saksóknara takist að sýna fram á að bankinn hafi orðið fyrir tjóni vegna þessara viðskipta og svo hvort ávinningur hafi verið í slíku athæfi fyrir ákærðu, eða hvort allir þeir rúmlega 8 milljarðar sem málið snýst um hafi í raun endað sem lækkun á skuldum Kaupþings og minni áhætta fyrir bankann.