Varað við mikilli úrkomu

Von er á mikilli rigningu á Snæfellsnesi, í Barðastrandasýslum og undir Eyjafjöllum að sögn Veðurstofu Íslands, sem hefur sent frá sér viðvörun. Búast má við stormi (vindhraði meiri en 20 metrar á sekúndur) á miðhálendinu.

Spár sýna fram á mikinn lægðagang í vikunni og því ljóst að vikan verður vætu- og vindasöm.

„Á mánudegi og aðfaranótt þriðjudags er spáð mikilli úrkomu á vestanverðu landinu frá sunnanverðum Vestfjörðum um Snæfellsnes austur í Ölfus.

Aðfaranótt miðvikudags fer önnur lægð yfir með mikilli úrkomu frá Snæfellsnesi að sunnanverðum Vatnajökli. Aðfaranótt fimmtudags fram á föstudagsmorgun er svo búist við mikilli úrkomu á svæðinu frá Mýrdalsjökli að sunnanverðum Austfjörðum.

Í slíku vatnsveðri má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum þar sem veðrið gengur yfir, svo fólki á ferð er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Fylgst verður með skriðuhættu í tengslum við þetta vatnsveður,“ segir í viðvörun frá Veðurstofunni.

Viðvörun vegna vatnavár

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert