Landsmenn ættu að tína til regnfötin og stígvélin, haustlægðirnar eru á leiðinni að landinu á færibandi. Útlit er fyrir að fyrsta alvöru haustlægðin gangi yfir landið á þriðjudag og aðfararnótt miðvikudags með rigningu og roki en áfram verður nokkuð hlýtt á landinu.
Að sögn veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands verður áfram hlýtt en von er á meiri rigningu næstu daga á Suður- og Vesturlandi. Lægðunum fylgir hvassviðri og verður einkum hvasst á fimmtudag.
Lægðin sem kemur að landinu aðfaranótt miðvikudags er mjög kröpp og djúp, að sögn veðurfræðings. Næsta lægð kemur svo strax á fimmtudag og eftir það koma þær á færibandi.
Þrátt fyrir að haustið sé komið í augum flestra, laufin farin að falla af trjánum og útilegur liðin tíð kom sumarið óvænt á Norður- og Austurlandi um helgina. Hiti gæti farið upp í 20 stig á Akureyri og á Egilsstöðum í dag og ætti að vera hægt að njóta sólarinnar fram á kvöld.
Frétt mbl.is: 22,9 stig á Seyðisfirði
Varað er við talsverðri eða jafnvel mikilli úrkomu á Snæfellsnesi og í Barðastrandasýslum. Rignt hefur á þessu svæði en 67,2 mm hafa fallið á Grundarfirði síðasta sólarhringinn og gæti talan farið upp í 100 mm. Ekki er þó von á jafn mikilli úrkomu og féll á Siglufirði og á Ströndum nýlega en úrkoma gæti þó orðið talsverð þegar líður á morgundaginn.
Veðurhorfur næsta sólarhringinn
Suðlæg átt, 10-18 m/s, hvassast V-til. Talsverð og jafn vel mikil rigning S- og V-lands, en annars hægari vindur og bjart með köflum. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á N-landi.
Á miðvikudag:
Suðaustan 8-13 m/s og víða dálítil rigning eða súld, en hægara og bjart með köflum N-til. Hvessir með kvöldinu og bætir í útkomu SA-til. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast fyrir norðan.
Á fimmtudag:
Suðaustan 13-20 m/s og talsverð rigning, einskum SA-lands, en hægara og þurrt að kalla fyrir norðan. Dregur talsvert úr vindi og úrkomum um kvöldið. Hiti 10 til 17 stig, hlýjast á N-landi.
Á föstudag:
Suðlæg átt og rigning A-lands, en annars skýjað og úrkomulítið. Hiti víða 10 til 15 stig.
Á laugardag:
Hæg suðlæg átt og dálítil væta með köflum. Milt veður.
Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi austanátt með rigningu, einkum S- og A-lands. Áfram milt veður.