Vegna mikillar úrkomu næsta sólarhring er búist við vatnavöxtum í ám á vestanverðu landinu, frá sunnanverðum Vestfjörðum að Ölfusi. Þetta kemur fram í viðvörun frá Veðurstofu Íslands.
Von er á mikilli rigningu á Snæfellsnesi og í Barðastrandasýslum fram eftir morgni. Búist er við stormi (vindhraða hærri en 20 m/s) á miðhálendinu og Suður- og Vesturlandi í nótt og fyrramálið.
Veðurspá fyrir næsta sólarhringinn gerir ráð fyrir hvassri sunnanátt, súld eða rigningu. Á Norðausturlandi er hins vegar þurrt veður og bjart með köflum. Vaxandi suðaustanátt í kvöld. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast norðaustanlands.
Aðfaranótt miðvikudags fer önnur lægð yfir með mikilli úrkomu frá Snæfellsnesi að sunnanverðum Vatnajökli. Aðfaranótt fimmtudags fram á föstudagsmorgun er svo búist við mikilli úrkomu á svæðinu frá Mýrdalsjökli að sunnanverðum Austfjörðum.
Í slíku vatnsveðri má búast við vatnavöxtum í ám og lækjum þar sem veðrið gengur yfir, svo fólki á ferð er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám. Fylgst verður með skriðuhættu í tengslum við þetta vatnsveður.