Von á hvelli í nótt

Það má reikna með því að björgunarsveitir verði kallaðar út …
Það má reikna með því að björgunarsveitir verði kallaðar út í nótt. Þórður Arnar Þórðarson

„Við þekkjum ágætlega svona lægðir, þær slengja niður þessum háloftavindi og geta gert það af miklum krafti. Fjöllin veita viðspyrnu og demba niður byljóttum vindi hlémegin,“ segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur um kröftuga lægð sem mun láta fara nokkuð fyrir sér í nótt.

Ástæða er til þess að huga vel að lausamunum og setja trampólín inn í geymslu og þá ættu ferðalangar með eftirvagna að bíða veðrið af sér.

Veðurstofa Íslands varar við stormi (meira en 20 m/sek) á miðhálendinu í dag, einnig á Suður- og Vesturlandi í nótt og í fyrramálið. Tryggingafélagið VÍS hefur sent frá sér tilkynningu þar sem kemur fram að mikilvægt sé að almenningur, sérstaklega á Suðvesturlandi, geri ráðstafanir í tíma og gangi frá lausamunum utandyra fyrir nóttina.

Sjá veðurvef mbl.is

„Trampólín, garðhúsgögn og grill eru meðal þess sem þarf að huga að. Eins þurfa verktakar og aðri hluteigandi aðilar að ganga vel frá á vinnusvæðum og þeir sem ætla að vera á ferðinni með eftirvagna ættu að bíða veðrið af sér,“ segir í tilkynningu VÍS.

Lægðin kemur úr suðri og veldur suðaustanstormi á landinu í nótt og í fyrramálið. Hún fer hratt yfir og umhverfis hana eru varasamar vindrastir. Sú skæðasta virðist ætla að fara yfir suðvestan- og vestanvert landið í nótt og nær veður hámarki ef að líkum lætur á milli kl. þrjú og sex í nótt.

Gæti að sér á Reykjanesbrautinni

„Það herðir á vindinum í nótt á undan lægðinni og um leið og hún fer hér hjá. Það er þá sérstaklega á Suðvestur- og Vesturlandi, Snæfellsnesi og Vesturlandi hvar verður hvað hvassast með þessu, á svæðinu frá Eyjafjöllum og vestur á Snæfellsnes og austur á sunnanverðum Vestfjörðum,“ segir Einar, aðspurður um hvar áhrifum lægðarinnar gætir helst.

Von er á allt að 25 m/sek meðalvindi og að hviður verði allt að 35 m/sek þegar mest lætur. „Þetta hittir á nóttina, þetta verður svona hvellur,“ segir Einar.nTalsverð úrkoma fylgir lægðinni.

Um er að ræða suðaustanátt og minnir Einar á að hún geti oft verið varasöm á Reykjanesbrautinni. Verður veðrið einmitt í hámarki þegar margir eru á leið um brautina í morgunflug og ættu ferðalangar að fara að öllu með gát og taka góðan tíma í ferðalagi.

Rík ástæða er til að taka trampólínin saman og ganga …
Rík ástæða er til að taka trampólínin saman og ganga frá þeim inni í geymslu. Rax / Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert