Trampólín voru í aðalhlutverki hjá björgunarsveitunum í nótt en um fimmtíu björgunarsveitarmenn voru við störf. Björgunarsveitin Suðurnes er að störfum í Njarðvíkvíkurhöfn vegna báts sem losnaði og eins hefur björgunarsveitin í Grundarfirði verið kölluð út.
„Nóg hefur verið að gera hjá björgunarsveitum á höfuðborgarsvæðinu vegna óveðurs er gekk yfir í nótt. Sveitin á Kjalarnesi var kölluð út vegna gruns um lausar þakplötur fyrir miðnætti en ekkert sjáanlegt var að fjúka og fór hún þá aftur í hús. Lögregla og slökkvilið sinntu fyrstu óveðursverkefnunum sem upp komu en upp úr klukkan eitt voru aðrar sveitir á höfuðborgarsvæðinu kallaðar til,“ segir í frétt á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að mörg trampólín hafi tekið flugið í nótt og skapað hættu. Hún beinir þeim tilmælum til fólks að þegar varað er við óveðri, líkt og gert var í gær, gangi það frá trampólínum á öruggan stað svo ekki þurfi að kalla út björgunarsveitarfólk. Eins er ýmislegt sem fólk getur gert til þess að koma í veg fyrir að hætta skapist, svo sem að loka gluggum, festa lausa muni o.fl.
Í nótt mátti finna trampólín uppi í trjám, á bílum og ljósastaurum svo eitthvað sé nefnt. Einnig fuku stillansar, þakkantar og plötur, ferðavagnar og skjólveggir. Á þremur stöðum féllu tré á götur og lokuðu þeim; við Strandgötu í Hafnarfirði, Hlíðarveg í Kópavogi og Höfðabakka í Reykjavík.