Þótt saksóknari hafi ekki sýnt fram á neina skynsamlega ástæðu fyrir að ráðstöfun fjármuna í Marple-málinu væri ólögleg, þá var samt ákveðið að ákæra í málinu. Hörður Felix Harðarson, verjandi Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, sagði þetta óskiljanlegt í málflutningi sínum í dag. „Ákæruvaldið lokar augunum fyrir því hvert fjármunirnir runnu og hverjir hagsmunirnir væru,“ sagðir hann og bætti við að þetta væri samt sem áður meginatriðið í málinu.
Talsverður aðdragandi var að atvikum málsins að sögn Harðar og sagði hann frá því að árið 2006 hafi erlendir greinendur varað við krosseignatengslum milli Kaupþings og Exista. Kaupþing hafi viljað draga úr þeim og losna við bréf í Exista og öfugt. Málið þróaðist þannig að Exista keypti öll hlutabréf í tryggingarfélaginu VÍS, en félagið Hesteyri, sem var stór eigandi í VÍS, fékk með því sölurétt á bréfum í Exista þegar félagið yrði skráð á markað. Gerðir voru samningar milli Hesteyrar, Bakkabræðra holding, sem var stærsti hluthafi í Exista og óstofnaðs félags þar að lútandi. Var Kaupþing ábyrgðaaðili samningsins.
Hörður sagði að Bakkabræður hefðu fyrst ætlað að kaupa hlutinn, en svo ekki viljað stækka hlut sinn í Exista og því hafi Hreiðar Már og Magnús Guðmundsson, forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, farið að skoða möguleika á að einhver annar tæki yfir samninginn. Að lokum fór svo að Marple gerði, en samningurinn var upp á rúmlega 11 milljarða. Hluti af honum var Marple gæti selt hlutinn á sama verði og hann var keyptur í eitt ár.
Þegar verð Exista fór að lækka var samningurinn gerður upp við Marple, en um var að ræða þriggja milljarða millifærslu sem fór til Kaupþings í Lúxemborg í desember 2007 og þaðan áfram til Marple. Hörður sagði að það hafi verið skýrir hagsmunir fyrir Kaupþing að haga málum á þennan hátt, en samt hafi saksóknari ekki reynt að upplýsa um þennan þátt í málinu.
Þá hafi mikið verið gert úr því að lán vegna kaupanna hafi komið frá Lúxemborg og greiðslur farið þar í gegn, en Hörður sagði það mjög eðlilegt. Marple hafi verið í miklum viðskiptum þar fyrir og þá hafi Kaupþing í Lúxemborg átt veð á allar eignir Marple sem hafi einfaldað málið talsvert. Á móti hafi móðurfélag Kaupþings þurft að veita sérstaka ábyrgð til dótturfélagsins í Lúxemborg, þar sem útlán til Skúla Þorvaldssonar og félaga í hans eigu voru orðin of há í Lúxemborg. Skúli var á þessum tíma talinn eigandi Marple, en deilt hefur verið um það í dómsmálinu.
Seinni millifærslan um mitt ár 2008 var vegna framvirkra gjaldmiðlaskiptisamninga Kaupþings og Marple, en Hörður sagði að þar hafi verið horft til þess að verja Marple fyrir frekari lækkunum. Segir hann að samningurinn hafi fundist undirritaður en að saksóknari gagnrýni þá að verklagi hafi verið lélegt og að samningurinn sé ekki raunverulegur heldur gerður eftir á.
Hörður sagði að þar sem Marple hefði skuldað Kaupþingi háar fjárhæðir hefði það verið bankanum til hags að félagið rétti úr kútnum. Það hafi því verið á viðskiptalegum forsendum sem viðskiptin hefðu verið gerð og slíkt hafi leitt til þess að Marple gæti greitt niður skuldir sínar við Kaupþing.
Þriðja atriðið í ákærunni varðar kaup á skuldabréfum útgefnum af Kaupþingi. Bankinn vildi kaupa slík bréf til baka, þar sem markaðsvirði þeirra var lægra en nafnvirði. Kaupþing í Lúxemborg keypti slík bréf á markaði og seldi áfram á kostnaðarverði til Marple. Stuttu seinna seldi Marple þau bréf til Kaupþings á nafnverði. Sagði Hörður að sá munur sem þarna hafi myndast upp á 1,8 til 2 milljarða hafi endað hjá Kaupþing. „Hver einasta króna rann til Kaupþings samstæðunnar,“ segir hann og að þetta hafi verið gert til að lágmarka tjón Kaupþings. Varðandi fjárdráttaásakanirnar benti Hörður á að engar arðgreiðslur hafi farið úr Marple til eigenda eða tekist hafi að sýna fram á auðgunarháttsemi.
Hörður var harðorður í garð embættis sérstaks saksóknara. Meðal annars hvernig verjendum og sakborningum hefði verið hafnað aðgangi að haldlögðum gögnum og þannig brotið á stjórnarskrár vörðum rétti sakaborninga. Hafði hann áður gagnrýnt þetta í stóra markaðsmisnotkunarmálinu.
Þá gagnrýndi hann að réttað væri í mörgum málum sem tengdust, en að það væri ekki sett saman í eitt mál. Átti hann þar við Al-thani málið, stóra markaðsmisnotkunarmálið, Marple-málið og Chesterfield-málið, sem enn á eftir að rétta í.
Þessa stöðu sagði hann mjög óheppilega, ekki bara upp á aðstöðu ákærðu til að verja sig og með tilliti til möguleika á reynslulausn, heldur væri embætti sérstaks saksóknara nú að saka menn um mismunandi hagsmunagæslu sem væntanlega hefði ekki gengið upp ef málin væru öll tekin saman í eitt. Benti hann á að í markaðsmisnotkunarmálinu hafi saksóknari haldið því fram að stjórnendur hefðu haft mikla hagsmuni af háu gengi bankans með að stýra gengi hans. Núna sé aftur á móti annað uppi á teningnum og sömu einstaklingar hafi haft hagsmuni af því að skaða bankann. Sagði hann þetta mjög áhugaverða stöðu og skrítið að gögn markaðsmisnotkunarmálsins hafi ekki verið notuð líka í þessu máli.
Sagðist Hörður ekki átta sig á þessari mótsögn í málflutningi saksóknara og sagði að nú væri eins og fyrrnefndar millifærslur stæðu í tómarúmi án tengingar við önnur mál sem er ákært í. „Eins og ákærðu hafi allt í einu orðið vitstola,“ sagði hann en bætti við að sem betur fer væri það ekki skýringin og síðast þegar hann vissi væru ákærðu enn í góðu andlegu ástandi.
Í gegnum vitnaleiðsluna spurði Hörður vitni ítrekað út í leit að þeim samningum sem eiga að hafa verið gerðir milli Marple og Kaupþings. Saksóknari segir að þeir hafi ekki fundist og að gögn sem tengist þeim bendi til þess að þeir hafi verið gerðir eftir á til að fela meintan fjárdrátt og umboðssvik. Sagði hann málið í raun standa og falla með því að ákæruvaldið haldi að engir samningar hafi verið gerðir. Sagði hann að ákæruvaldið hlyti að hafa leitað af sér allan grun, en svo hafi komið að leitin hafi í raun verið fyrirspurn til slitastjórnar bankans og þar leitað í tölvukerfum bankans, en ekkert í skjaltækum gögnum, þ.e. ekki gögnum sem höfðu verið skráð á tölvutækt form. „Hvers vegna var ekki leitað í þeim gögnum sem voru fjarlægð af skrifstofu forstjóra,“ spurði hann.
Ekkert hefur verið gert til að varpa ljósi á meinta hagsmuni ákærðu af viðskiptum Marple, sagði Hörður og bætti við „Skiptir þetta engu máli?“