Hávaðarok en engin útköll

Það er hávaðarok á Snæfellsnesi og ökumenn ættu að fara …
Það er hávaðarok á Snæfellsnesi og ökumenn ættu að fara varlega. mbl.is/Rax

Ekkert var um útköll vegna foks á hlutum, svo sem trampólínum, í nótt samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni. Engin slík verkefni voru skráð í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þau skiptu tugum aðfararnótt miðvikudags. Önnur lægð er á leiðinni og má búast við stormi fram undir hádegi. Mjög hvasst er víða og hefur vindhraðinn farið yfir 40 metra á sekúndu í hviðum undir Hafnarfjalli og á Fróðárheiði. Eins er mjög hvasst á Reykjanesbraut

Áfram vætusamt á sunnanverðu landinu, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Önnur lægð fer til norðurs fyrir vestan land í nótt og fram eftir morgni. Búist er við að hún verði lítið eitt aflminni en sú sem fór sömu leið síðustu nótt, en þó má búast við að slái í storm um landið vestanvert fram undir hádegi

Hætta á að vatn flæði yfir vegi

Seint í gærkvöldi hefur verið varað við vatnavöxtum á vef Veðurstofu Íslands.

„Í kvöld og nótt fer lægð yfir landið með miklu úrkomubelti frá Mýrdalsjökli austur fyrir Höfn í Hornafirði. Úrkoman verður áköfust upp úr miðnætti og fram undir hádegi á morgun, fimmtudag, en á þeim 12 klukkustundum er spáð allt að 110 mm úrkomu og leysingu af Mýrdalsjökli og suðurhluta Vatnajökuls. Rennsli er þegar mikið í ám á þessu svæði og mun líklega aukast enn frekar. Hætta er á að vatn geti flætt yfir vegi ef ræsi hafa ekki undan,“ segir í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.

Hringt í 112 í stað þess að bjarga sjálfur tunnunni

Um 50 björgunarsveitamenn voru við störf í fyrrinótt í fyrstu alvöru haustlægðinni. Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar, segir að litlum og einföldum verkefnum sé að fjölga.

„Ég er búinn að flytja margar ræður um hegðun Íslendinga og að það sé búið að ala okkur upp í að vera svolitlir aumingjar. Fólk stendur í glugganum heima hjá sér og sér ruslatunnu nágrannans takast á loft og stefna á bíla. Hvers vegna í ósköpunum er ekki farið af stað, náð í tunnuna og komið í veg fyrir tjón. Af hverju er það fyrsta sem fólk gerir að hringja í 112 og bíða eftir að aðrir geri hlutina. Að gera eitthvað í þessu sjálfur? Nei, það er beðið eftir einhverjum sjálfboðaliðum sem eru í önnum einhvers staðar annars staðar,“ segir Smári.

Hann ítrekar að björgunarsveitir mæti að sjálfsögðu í öll þau útköll sem þær séu boðaðar í.

„Þetta er sem betur fer minnihluti fólks sem hagar sér svona. Meirihlutinn er ábyrgur í sínu umhverfi og tekur tillit til veðurspár. En við getum gert miklu meira til að afstýra þessum litlu verkefnum sem ég kalla óþarfa útköll. Auðvitað förum við í öll útköll ef þess þarf en það má koma í veg fyrir mörg þeirra.“

Smári segir að líkindin með útköllum í haustlægðum séu mjög mikil. Þetta snúist oft um trampólín, ruslatunnur og skjólveggi sem séu ekki föst þrátt fyrir viðvaranir.

Fara kannski þrisvar í sama garðinn

„Þegar björgunarsveitir eru farnar að fara þrisvar sinnum í sama garðinn að reyna að binda sama skjólvegg niður sem fauk líka í síðustu lægð og eigandinn hefur ekkert gert í millitíðinni þá veltir maður fyrir sér hvort það sé eðlilegt að hringja bara í 112 og biðja einhvern annan að festa skjólvegginn.

Þetta eru nefnilega nánast alltaf sömu útköllin. Þessi meðvitund um okkar eigin umhverfi, hún hefur dalað og dvínað.“

Rok og rigning í kortunum

Veðurspáin fyrir næsta sólarhring: Suðaustan 13-23 m/s, hvassast vestanlands. Súld eða rigning, en þurrt að kalla á Norður og Norðausturlandi. Dregur smám saman úr vindi og úrkomu eftir hádegi, sunnan 5-10 í kvöld með smáskúrum, en þurrt fyrir norðan. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á föstudag:

Suðaustan 8-15 m/s og rigning austanlands, annars hægari og úrkomulítið fram á kvöld. Útlit fyrir talsverða rigningu suðaustan til. Hiti 7 til 13 stig.

Á laugardag:
Hæg suðlæg átt og dálitlir skúrir, en þurrt og bjart á Norður- og Austurlandi. Snýst í austlæga átt 5-10 um kvöldið og þykknar upp austan til með rigningu. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á sunnudag:
Norðaustlæg eða breytileg átt 3-10 m/s og rigning með köflum um allt land. Hiti 6 til 11 stig.

Á mánudag:
Suðaustlæg átt 3-8 m/s og smáskúrir, en bjart með köflum austast á landinu. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast á norðausturlandi.

Á þriðjudag og miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt með rigningu fyrir norðan, en úrkomulítið sunnanlands. Hiti 8 til 13 stig sunnan heiða, en kólnar norðan til.

Frá Njarðvíkurhöfn í gærmorgun
Frá Njarðvíkurhöfn í gærmorgun Facebook síða Slysavarnafélagsins Landsbjörg
Þetta trampólín endaði á loftneti hússins sem stendur við Ágrúartröð …
Þetta trampólín endaði á loftneti hússins sem stendur við Ágrúartröð í Hafnarfirði í fyrrinótt mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert