Skólaakstri aflýst vegna veðurs

Frá höfninni í Ólafsvík í morgun.
Frá höfninni í Ólafsvík í morgun. mbl.is/Alfons

Hávaðarok og rigning er nú á norðanverðu Snæfellsnesi, og öllum skólaakstri í Snæfellsbæ hefur verið frestað þangað til veður gengur niður. Samkvæmt spá Veðurstofu Íslands á veðrið að ganga niður um hádegið.

Viðar Hafsteinsson, formamaður björgunarsveitarinnar Lífsbjargar í Snæfellsbæ, segir að enginn tjón hafi verið tilkynnt enda kunna íbúar að búa sig undir svona veður. Allir séu vel undirbúnir. Segir Viðar ennfremur að hann hafi farið í eftirlitsferð á Hellissand og Rif og í ljós hafi komið að vel hafi verið gengið frá lausamunum og allt á góðu róli á höfninni á Rifi. Fiskikör höfðu að vísu farið af stað vegna veðursins en ekkert tjón hlaust af því, að sögn Viðars.

Pétur Bogason, hafnavörður í Ólafsvík, segir að hann hafi farið eftirlitsferð um hafnarsvæðið og sé allt í góðu lagi þar. Pétur segir ennfremur að klukkan 8.10 í morgun hafi verið 26 m/s og 32 m/s í hviðum af suðsuðaustan átt og hiti 10,4 gráður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert