Formenn aðildarfélaga Starfsgreinasambandið telja brýnt að endurmeta forsendur kjarasamninga í ljósi niðurstöðu gerðardóms. Björn Snæbjörnsson, formaður SGS, segir ljóst að gerðardómur hafi veitt meiri launahækkanir en samningar SGS. Sambandið muni skoða það fram í febrúar hvort að kjarasamningum verði sagt upp.
Formannafundur SGS samþykkti ályktun þar sem segir að gerðardómur hafi sett ný viðmið á vinnumarkaði sem séu í verulegu ósamræmi við þau viðmið sem samninganefnd Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagið sömdu um. Í kjarasamningunum frá því í maí hafi það verið almenn og víðtæk krafa í samfélaginu að hækka bæri lægstu laun og lyft hafi verið grettistaki í þá átt við undirritun samninganna.
Niðurstaða gerðadómsins sé hins vegar sú að hækka ákveðna hópa háskólamenntaðs fólks hlutfallslega meira en gert var í almennu samningunum. Ekki sé tekið tillit til samstöðu um hækkun lægstu launa né skattabreytinga í gerðardómnum.
„Það eru gríðarleg vonbrigði og lýsir algerum dómgreindabresti að gerðadómur hafi litið algjörlega framhjá þeim leiðbeiningum sem dómurinn átti að vinna eftir til að stuðla að stöðugleika,“ segir á ályktun formannafundarins.
„Við erum með ákveðin forsenduákvæði í okkar kjarasamningum. Það er náttúrulega alveg ljóst að sumir samningar sem hafa verið gerðir og gerðardómurinn þrýstir mjög á því aðrir hafa fengið meiri hækkanir en við. Við teljum brýnt að endurskoða þessi mál,“ segir Björn.
Hann segir að ákvörðun verði ekki tekin fyrr en í febrúar hvort að kjarasamningunum verði sagt lausum af þessum sökum en staða mála verði skoðuð fram að því.
„Það liggur ljóst fyrir að ef ekkert er gert þá er útlitið þannig. Málið er einfalt. Það var samið um ákveðna hluti og ákveðna launastefnu sem gerðardómur hefur bara að vettugi. Hann hækkar þessa aðila jafnmikið og lægst launaða fólkið,“ segir Björn.
Gerðardómur ákvað meðal annars laun hjúkrunarfræðinga og ýmissa heilbrigðisstétta innan Bandalags háskólamanna (BHM). Spurður að því hvort að ekki hafi verið réttlætanlegt að þeir hópar fengju meiri hækkanir í ljósi umræðu um brotthvarf heilbrigðisstarfsmanna til útlanda bendir Björn á að fleiri en heilbrigðisstarfsmenn innan BHM hafi fengið laun sín hækkuð af gerðardómi.
„Er ekki fullt af verkafólki sem er búið að fara til Noregs og Danmerkur? Það er fólk úr öllum stéttum sem hefur farið erlendis,“ segir Björn.