Fjöldi þingmála endurfluttur

Fjöldi þingmála hefur verið lagður fram á nýjan leik á Alþingi sem ekki hafa verið afgreidd á fyrri þingum. Vilji þingmenn eða ráðherrar halda þingmálum til streitu gera reglur þingsins ráð fyrir því að flytja þurfi þau aftur hafi þau ekki náð fram að ganga áður en þing lýkur störfum að vori.

Meðal þeirra þingmála sem lögð hafa verið fram að nýju er frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum þess efnis að kveðið verði á um bann við hefndarklámi, frumvarp um að komið verði á sérstökum byggingasjóði fyrir Landspítalann, þingsályktunartillaga um að undirbúnar verði fríverslunarviðræður við Japan og þingsályktunartillaga þess efnis að gerðar verði ráðstafanir til þess að hægt verði að halda úti millilandaflugi um Hornafjarðarflugvöll.

Ennfremur er lagt fram að nýju frumvarp um eigendastefnu fyrir Landsvirkjun, frumvarp um breytingar á lögum um utanríkisþjónustu Íslands þess efnis að störf ráðuneytisstjóra og sendiherra verði auglýst, þingsályktunartillaga um að sett verði á stofn embætti umboðsmanns aldraðra, þingsályktunartillaga um að framtíðargjaldmiðil Íslands og þingsályktunartillaga um að Vegagerðinni verði falið að hefja undirbúning að hönnun og stækkun Þorlákshafnar.

Þá hafa beinir um skýrslur frá ráðherrum einnig verið endurfluttar. Þannig er endurflutt beiðni um skýrslu frá Ragnheiði Elínu Árnadóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra um hagræn áhrif kvikmyndagerðar á Íslandi, beiðni um skýrslu frá Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra um blandaðar bardagaíþróttir og beiðni um skýrslu frá Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra um stöðu kvenna á vinnumarkaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert