Dómsuppsaga í Marple málinu mun fara fram eftir sléttar fjórar vikur, eða föstudaginn 9. október. Aðalmeðferð málsins kláraðist í dag, en hún tók heila viku. Þegar tilkynnti um að hann myndi setja málið í dóm að loknum málflutningi saksóknara og verjenda í málinu leit hann á klukkuna og tók fram að væntanlega væri best að virða fullkomlega þann tímaramma sem gefinn er og því færi dómsuppsagan fram fyrir hádegi, réttara sagt klukkan ellefu.
Í málinu eru þau Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri í Kaupþingi og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri bankans, ákærð fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Magnús Guðmundsson, fyrrum forstjóri Kaupþings í Lúxemborg er aftur á móti ákærður fyrir hlutdeild í sömu brotum og fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson ákærður fyrir hylmingu og peningaþvott.
Ákæruefnið er í mjög stuttu máli tvær millifærslur frá Kaupþingi til Kaupþings í Lúxemborg sem fóru áfram til félagsins Marple í Lúxemborg á árunum 2007-8, þar sem saksóknari telur að um fjárdrátt sé að ræða. Heildarupphæð þeirra er rúmlega 6 milljarðar. Þá segir saksóknari að viðskipti með skuldabréf í Kaupþingi hafi skilað Marple ólöglega um 2 milljörðum og ákærir þar fyrir umboðssvik