Skúli Þorvaldsson, fjárfestir og einn hinna ákærðu í Marple-málinu, mátti ekki fjárfesta á Íslandi með fjármunum þeirra félaga sem höfðu orðið fyrir kyrrsetningu. Taldi embætti sérstaks saksóknara það ekki nægjanlega tryggt. Þetta sagði verjandi Skúla í málflutningi sínum í dag, en hann sagði að í raun hafi sérstakur saksóknari verið fjárhagslegur ráðgjafi Skúla undanfarin fimm ár.
Sagði verjandinn að Skúli hefði fengið heimild til að ráðstafa fjármunum félaganna með samþykki sérstaks saksóknara til að viðhalda eignum félaganna. Þannig hafi hann fengið að fjárfesta í skráðum verðbréfum í ákveðnum kauphöllum, en ekki hér á landi. Félögin sem um ræðir eru staðsett í Lúxemborg.
Aðrar fjárfestingar, sem hafa að sögn verjandans, reynst Skúla mjög vel í gegnum tíðina hafi aftur á móti verið hent til hliðar, því ráðgjöfin hafi verið hjá saksóknara. Bað hann fólk um að velta því fyrir sér hvernig hefði getað gengið með þessar fjárfestingar undanfarin ár ef Skúla hefði verið leyft að nýta eigið nef til að ákveða fjárfestingarnar og meðal annars færa fjármuni hingað heim, en talsverðar hækkanir hafa verið á flestum mörkuðum hér á landi undanfarin 5 ár.
Eins og aðrir verjendur í málinu sagði hann að gögn ákæruvaldsins stemmdu ekki. Þannig væri vísað til teikninga sem ættu að sýna ferðalag peninga frá Kaupþingi til félaga Skúla, en þar stemmdu ekki dagsetningar þannig að um væri að ræða fjármuni vegna meintra brota. Sagði hann þetta tengjast öðrum fjárfestingum og að ákæruvaldinu hafi ítrekað verið bent á það. Sagði hann ótækt að þetta væri því til umræðu í þessu máli.
Þannig sagði hann að inn í skjölum málsins væri talsvert um skjöl sem tengdust félögunum Lindsor og Hollybeach, en ekki væri ákært fyrir þau í þessu máli. Sagði hann þetta vera „moðsuðu“ sem tengdist Marple-málinu ekki neitt. Þessi gríðarlegi fjöldi skjala væri settur fram til að reyna að „búa til hughrif hjá fjölmiðlafólki,“ og sýna fram á eitthvað sem væri beinlínis rangt.
Verjandi Skúla sagði hann nú hafa eytt 5 árum af ævikvöldi sínu í að snúast í kringum þetta mál. Sagði hann engan hafa haft áhuga á að ræða að þeir fjármunir sem hefðu verið kyrrsettir væru peningar fjölskyldunnar og hefðu fengist með vinnu tveggja kynslóða, t.d. með sölunni á Síld og fisk fyrir síðustu aldamót.