Ekki er rétt að embætti saksóknara hafi vanrækt það að kanna hvort skjöl hefðu verið á skrifstofu fyrrum forstjóra Kaupþings, Hreiðars Más Sigurðssonar, sem gætu tengst Marple-málinu. Þetta sagði Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari málsins, í mótsvörum sínum í málinu í dag. Verjendur ákærðu í málinu hafa sagt að umræddir samningar, sem mikið hafa verið ræddir í málinu, hafi verið gerðir og vitnuðu nokkur hinna ákærðu um það.
Sagði verjandi Hreiðars Más að svo virtist ver að saksóknari hafi ekki leitað þessara gagna og þar sem sönnunarkrafan væri á ákæranda bæri að virða það ákærðu í hag að skjölin hefðu ekki fundist. Arnþrúður sagði aftur á móti að embættið hefði óskað eftir rafrænum gögnum frá slitabúinu, og annarra gagna ef þau lægju fyrir. Vísaði hún þessu til staðfestingar í bréf til slitabúsins.
Þá sagði hún að áhugavert væri að eftir margra ára rannsókn hefðu ákærðu fyrst nýlega komið með nákvæmar skýringar á hvar samningarnir ættu að vera. Sagðist hún vel þekkja sönnunarkröfu saksóknara, en að þessar nýlegu skýringar þyrfti að taka mið af í samhengi við fyrri framburð.
Saksóknari nýtti mótsvör sín einnig til að gagnrýna ársreikning sem verjandi Hreiðars Más hafði látið útbúa fyrir félagið Marple. Sagði Arnþrúður að áritun endurskoðanda benti til þess að hann hefði ekki viljað bera mikla ábyrgð á ársreikningnum. Þá hafi komið tvö eintök af reikningnum, fyrst óáritaður reikningur og svo áritaður. Þar hafi þó verið talsverður munur á niðurstöðu, eða sem nemi fyrstu millifærslunni sem ákært er fyrir. Sagði hún þetta áhugaverða staðreynd fyrir dómara málsins.
Að loknum mótrökum allra verjanda óskaði Skúli Þorvaldsson, fjárfestir og einn ákærðra í málinu, eftir því að flytja ávarp. Benti hann dómurum á þótt saksóknari hefði fundið til fjölda gagna sem ýttu undir sinn málflutning, þá hefði fjölda skjala verið sleppt við aðalmeðferðina. Þannig hefði t.d. ekki verið bent á fundagerð Marple frá 2007 þar sem staðfest var framsal á kaupréttum í Exista. Um var að ræða miklar skuldbindingar af hálfu félagsins, en samt skrifaði Skúli ekki undir skjalið. Sagði hann þetta eitt þeirra atriða sem benti til þess að ítök hans í félaginu væru ofmetin af saksóknara.
Þá benti hann á skráningu Marple í eignaskrá í Lúxemborg, eins og verjandi hans hafði áður gert og að þar væri ekki nein staðfesting á því að hann hafi eignast félagið. Engir pappírar væru til að staðfesta að hann hefði gerst eigandi og ef það dygði að hann skrifaði undir pappír einhliða til að eignast félög, þá myndi hann fara strax í dag og skrifa slíka pappíra fyrir Google eða Apple, „eða bara hvaða félag sem er,“ sagði Skúli.
Að lokum gagnrýndi hann fjölmiðla fyrir að taka við hvaða upplýsingum sem er í tengslum við þau mál sem væru til rannsóknar og birta þau. Sagðist hann hafa verið ásakaður um það í mörg ár í fjölmiðlum að hafa tekið fjármuni og um ólöglegt athæfi. Var hann nokkuð hvassyrtur og beindi orðum sínum beint að blaðamanni þegar hann sagði að fjölmiðlar ættu einu sinni að rannsaka mál betur sjálfir áður en hlutir væru birtir.