Sögðu „já takk“ við broti úr Berlínarmúr

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Baldur Kristjánsson

Fyrir nokkru fékk Reykjavíkurborg boð frá Neu West Berlin listamiðstöðinni um það hvort hún væri til í að þiggja hluta úr Berlínarmúrnum og koma fyrir við Höfða. „Til að gera langa sögu stutta sögðum við „já takk“ í borgarráði í gær,“ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í vikulegt fréttabréf sitt.

Frétt mbl.is: Eignast hluta úr Berlínarmúrnum

Hann segir að von sé á útfærslum bæði frá menningar- og ferðamálaráði og umhverfis- og skipulagsráði um nákvæmari staðsetningu.

„Samskip ætlar að sjá um flutninginn og þakka ég þeim fyrir það. Brotið er svolítið stórt, tæpir fjórir metrar á lengd þannig að þetta verður frábær viðbót í útilistaverkaflóru borgarinnar en endurspeglar um leið djúpa sannfæringu borgarinnar fyrir friði. Hrun múrsins kallast á við endalok Kalda stríðsins sem má segja að hafi myndast sprungur í í Höfða þegar Reagan og Gorbachev hittust þar fyrir 29 árum. Um leið hefur Reykjavíkurborg markað sér stefnu sem borg friðar sem aðili að friðarsetri í samstarfi við Háskóla Íslands og með tendrun friðarsúlunnar á hverju ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert