Fyrir nokkru fékk Reykjavíkurborg boð frá Neu West Berlin listamiðstöðinni um það hvort hún væri til í að þiggja hluta úr Berlínarmúrnum og koma fyrir við Höfða. „Til að gera langa sögu stutta sögðum við „já takk“ í borgarráði í gær,“ skrifar Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, í vikulegt fréttabréf sitt.
Frétt mbl.is: Eignast hluta úr Berlínarmúrnum
Hann segir að von sé á útfærslum bæði frá menningar- og ferðamálaráði og umhverfis- og skipulagsráði um nákvæmari staðsetningu.
„Samskip ætlar að sjá um flutninginn og þakka ég þeim fyrir það. Brotið er svolítið stórt, tæpir fjórir metrar á lengd þannig að þetta verður frábær viðbót í útilistaverkaflóru borgarinnar en endurspeglar um leið djúpa sannfæringu borgarinnar fyrir friði. Hrun múrsins kallast á við endalok Kalda stríðsins sem má segja að hafi myndast sprungur í í Höfða þegar Reagan og Gorbachev hittust þar fyrir 29 árum. Um leið hefur Reykjavíkurborg markað sér stefnu sem borg friðar sem aðili að friðarsetri í samstarfi við Háskóla Íslands og með tendrun friðarsúlunnar á hverju ári.“