Brotist inn í Laugalækjarskóla

mbl.is/Þórður

Um miðnætti í nótt var lögregla kölluð að Laugalækjarskóla. Þar hafði verið brotist inn. Farið hafði verið inn í skrifstofu skólans.  Þar höfðu þjófarnir skilið eftir verkfæri sem notuð voru við innbrotið.  Ekki er ljóst hverju eða hvort einhverju hafi verið stolið.

Klukkan tuttugu mínútur í tvö stöðvaði lögregla ökumann á Breiðholtsbraut. Í bílnum var par á þrítugsaldri. Við athugun fundust kannabisefni í bifreiðinni sem pilturinn viðurkenndi að eiga og vera með í sölu. Við áframhaldandi rannsókn lögreglu fannst talsvert magn af kannabis, e-töflum og sterum. Einnig voru peningar haldlagðir sem taldir eru vera ávinningur af fíkniefnasölu. Karlmaðurinn er í haldi lögreglu, konan var frjáls ferða sinna eftir skýrslutöku.

Um fjögur í nótt kom ökumaður á lögreglustöðina við Vínlandsleið og tilkynnti um umferðaróhapp. Maðurinn hafði fyrr um nóttina verið að aka eftir Nesjavallaleið í átt að borginni þegar hann sveigði framhjá hópi af kindum og missti stjórn á bifreið sinni sem hafnaði á hitaveituröri.

Skemmdir urðu á rörinu og bifreiðin er mikið skemmd og óökufær. Maðurinn þurfti að ganga töluverða vegalengd til að komast í símasamband. Þegar hann komst í símasamband var hann sóttur af ættingja og fór hann rakleitt á lögreglustöðina að tilkynna óhappið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert