Kjánalegt að persónugera málið

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri.
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir í samtali við mbl.is að Samherja-málið svokallaða hafi verið of persónugert í fjölmiðlum undanfarið og allt að því kjánalegt að forstjóri stærsta fyrirtækis á Íslandi taki málinu svona persónulega.

Hann segir að það hafi verið sérstaklega athugað hvort að hægt væri að ljúka málinu með sáttum en eftir að hafa ráðfært sig við lögfræðinga bankans hafi niðurstaðan orðið sú að Seðlabankanum bæri lögum samkvæmt að kæra málið til Sérstaks saksóknara. Að þegar rökstuddur grunur um að meiriháttar brot hafi verið framin á gjaldeyrislögum beri bankanum skylda til þess að kæra.

Þorsteinn Már Baldvinsson, hefur gagnrýnt Seðlabankann harkalega eftir að Sérstakur saksóknari ákvað fyrir skemmstu að láta stóran hluta málsins falla niður. Hefur hann meðal annars kallað eftir því að Már Guðmundsson segi stöðu sinni lausri.

Sérstakur saksóknari hefur ekki metið kæruefnin

„Það er rétt að hafa að hafa það í huga að kæra er ekki það sama og sakfelling. Við erum ekki einu sinni lögregla, við rannsökum ekki mál til fulls og sækjum ekki mál fyrir dómi, það er í höndum Sérstaks saksóknara,“ segir Már og bætir við:

„Það er hans að meta það og hann hefur hingað til ekki metið sjálf kæruefnin því að þetta hefur tvisvar sinnum strandað, annars vegar á göllum í lögunum og hins vegar þegar við þurftum að taka það skref að setja kærurnar yfir á einstaklinga sem að mér þótti ekkert þægilegt. Þá lendir hann [Sérstakur saksóknari] í þeim vanda að það er miklu erfiðara að heimfæra einstök atriði yfir á einstaklingana heldur en yfir á fyrirtæki.“

Már segir að það sé miklu stærra mál heldur en fjölmiðlar hafi gert sér grein fyrir að Sérstakur saksóknari hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að sækja fyrirtæki til saka fyrir brot á gjaldeyrislögum. Því að lagabálkurinn sé kominn úr lögum um fjármálafyrirtæki og að sé skilningur Sérstaks saksóknara réttur, þá hafi ekki verið hægt að gefa út ákærur á hendur fjármálafyrirtækja frá árinu 2006 og þangað til núna fyrir stuttu þegar lögunum var aftur breytt til þess að tryggja að hægt væri að sækja lögaðila til saka. Hann segir þó að þessi skilningur sé umdeildur en að bankinn hafi engan vettvang til þess að vefengja niðurstöðu Sérstaks saksóknara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert