Fíkniefni falin í gaskútum og varadekki

Hollenska parið kom til landsins með Norrænu.
Hollenska parið kom til landsins með Norrænu. mbl.is/Pétur

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Austurlands sem úrskurðaði hollenska konu í gæsluvarðhald til 23. september sem er grunuð um stórfelldan innflutning á fíkniefnum til landsins. Hún og hollenskur karlmaður, sem hún var með í för, voru handtekin á Seyðisfirði 8. september sl.

Þá er heimilt láta konuna sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldinu stendur, enda krefjist rannsóknarhagsmunir þess.

Grunur um innflutning á 80 kg af MDMA

Úrskurður héraðsdóms lá fyrir 9. september sl. Þar kemur fram í greinargerð lögrelustjórans á Austurlandi, að konan sé grunuð um mjög stórfelldan innflutning á fíkniefnum með því að hafa að morgni 8. september 2015, flutt til landsins c.a. 80 kg af MDMA, falið í bifreið sem var um borð í Norrænu. 

Fram kemur að Norræna hafi komið til hafnar klukkan 9 og klukkustund síðar hafi bifreiðinni verið ekið frá borði og að grænu tollhliði. Maðurinn, sem einnig sé kærður í málinu, hafi ekið bifreiðinni en konan setið í farþegasæti.

Fíkniefni falin í niðursuðudósum, gaskútum og varadekki

Tollgæslan ákvað að taka bifreiðina og parið í úrtaksleit. Við leit í bifreiðinni hafi fundist 14 niðursuðudósir, sem maðurinn sagði að innhéldu fíkniefni.

Við grófa rannsókn lögreglu innihaldi hver dós um 800 grömm af óþynntu MDMA, eða samtals 11,2 kíló. Auk þess liggi fyrir að í varadekki bifreiðarinnar og í tveimur gaskútum hafi eitthvað verið falið og sagði maðurinn að það væru líka fíkniefni. Miðað við þyngd varadekksins og gaskútanna, megi áætla að í þeim geti verið falin u.þ.b. 70 kíló af ætluðum fíkniefnum, að því er segir í greinargerð lögreglustjórans. 

Þá kemur fram, að maðurinn hafi viðurkennt að hafa vitað um tilvist fíkniefnanna, en konan, sem er eiginkona hans, hafi neitað að hafa vitað um efnin.

Þegar grunur vaknaði um að í bifreiðinni kynnu að vera fíkniefni, var parið handtekið og nákvæmari leit fór fram í bifreiðinni.

Brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi

Lögreglan segir að rökstuddur grunur sé um stórfellt fíkniefnabrot, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi og konan sé eldri en 15 ára.

Í greinargerð lögreglustjórans segir ennfremur, að farið hafi verið fram á gæsluvarðhald þar sem ætla megi að konan muni torvelda rannsókn málsins ef henni verði sleppt úr haldi. Miklu skipti fyrir lögregluna að reyna að finna upplýsingar um þá aðila sem tengjast málinu, bæði á Íslandi og erlendis.

Þá telur ákæruvaldið að vegna hins mikla magns af fíkniefnum og að því er virðist, hins mikla styrkleika þeirra, krefjist almannahagsmunir þess að konan verði vistuð í varðhaldi.

Lögreglan krafðist fjögurra vikna gæsluvarðhalds

Lögreglan fór fram á a hún yrði úrskurðað í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Það byggi á því að í málinu sé farin af stað talsvert viðamikil rannsókn, sem óhjákvæmilega taki tíma og telji lögreglan að ekki veiti af fjórum vikum til þess að klára þær tæknirannsóknir og aðrar rannsóknaraðgerðir sem nauðsynlega þurfi að framkvæma.

Héraðsdómur féllst á kröfu lögreglustjórans á Austurlandi um að konan yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi, en þó þótti ekki efni til að marka gæsluvarðhaldið lengur en til 23. september.

Hæstiréttur staðfesti úrskurðinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka