Inga Birna Erlingsdóttir, sem nú keppir í úrvalsúrtaki mótorhjólakvenna um að komast í fyrsta kvennalið GS bikars BMW, er í fimmta sæti eftir daginn í dag. Keppnin fer fram í Suður-Afríku og reynir m.a. á þol, styrk, samstarfshæfileika, tækni og verkunnáttu kvennanna. Inga þarf að ná þriðja sæti eða ofar til að komast í liðið en hún keppir gegn níu konum frá jafn mörgum löndum um plássin.
„Í gærkvöldi var ég fjórða,“ sagði Inga í dag þegar blaðamaður náði stuttlega af henni tali í dag.
„Ég vann keppnina þar sem við áttum að tjalda á tíma og koma okkur fyrir, meira veit ég ekki um stigagjöfina.“
Nú í kvöld tilkynnti Inga síðan á Facebook hópnum MyRide MyLife MyGS þar sem aðstandendur og aðdáendur geta fylgst með ferðum hennar að hún hefði fallið niður um sæti.
„Dagurinn í dag gekk ekki alveg nógu vel. Datt niður í fimmta sæti. Úrslitin ráðast á morgun,“ skrifaði hún.
Það þýðir að Inga hefur einn dag í viðbót til að næla sér í næg stig til að komast í lokaliðið. Hægt er að lesa nánar um ævintýri hennar á heimasíðu hennar eða á fyrrnefndum Facebook hóp.
Inga valin úr hópi 119 umsækjenda
Í afreksúrtaki mótorhjólakvenna