Barátta efnisveitanna framundan

Bandaríska efnisveitan Netflix hefur hrist rækilega upp í íslenskum fjölmiðla og fjarskiptamarkaði á undanförnum misserum. SkjárEinn mun setja allt sitt púður í efnisveituþjónustu frá og með næstu mánaðamótum en einnig er búið að boða að íslensk útgáfa af Netflix komi á markaðinn á árinu.

Fyrr á árinu byrjaði Vodafone að bjóða upp á Play og Cirkuz þjónustu sína og á síðasta ári keyptu 365 miðlar fjarskiptafyrirtækið Tal og hóf sölu á fjarskiptaþjónustu samhliða afþreyingunni.

Þrátt fyrir aukið framboð á markaðnum er óvíst hvort þau 20 þúsund heimili sem talið er að nýti sér bandarísku efnisþjónustu Netflix í gegnum krókaleiðir muni hætta því og taki að skipta við íslenska aðila.

Sverrir Björgvinsson, ritstjóri tæknibloggsins einstein.is, segir að himinn og haf sé á milli úrvalsins sem sé þar í boði og á íslenskum veitum. Hann bendir jafnframt á að þegar Netflix hafi byrjað að bjóða upp á þjónustuna á Norðurlöndunum hafi úrvalið þar ekki verið samkeppnishæft við það sem er í boði í Bandaríkjunum og því séu fjölmargir í þeim löndum sem enn fari í gegnum krókaleiðir til að fá aðgang að bandarísku útgáfunni.

Næstu mánuðir ættu því að verða áhugaverðir í þessum geira en efnið, úrvalið og verðið mun væntanlega ráða úrslitum um vinsældir efnisveita á markaðnum.

Sjá frétt mbl.is: Íslensk efnisveita kynnt til sögunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert