Ísland verður „Live“ eða „í beinni“ á forritinu Snapchat á morgun. Þá geta einstaklingar sem staddir eru á Íslandi og hafa forritið, í símanum sínum eða spjaldtölvu, sent inn myndir og myndskeið sem allir notendur Snapchat víðsvegar í heiminum geta skoðað. Forritið er afar vinsælt og samkvæmt frétt Business Insider voru í maí s.l. næstum því 100 milljónir virkra notenda á Snapchat.
„Beina útsendingin“ flakkar á milli landa og viðburða sem haldnir eru víðsvegar í heiminum. Í dag eru það Balí, Jamaíka og tískuvikan í New York sem eru „í beinni.“ Ætla má að hér sé um að ræða ágætis tækifæri á landkynningu.