Íslensks manns leitað á Sikiley

Siem Pilot
Siem Pilot Af vef Frontex

Yfirvöld í ítölsku borginni Catania á Sikiley hafi hafið rannsókn á hvarfi íslensks manns sem var skipverji í norska björgunarskipinu Siem Pilot. Sagt er frá þessu á vef RÚV og vitnað í vefsíðu Frontex en skipið starfar fyrir Frontex í Miðjarðarhafinu. Á vef Frontex kemur fram að ekkert hafi spurst til mannsins síðan aðfaranótt mánudags en norskir rannsóknarlögreglumenn eru nú komnir til Ítalíu. Á vef Frontex er maðurinn nafngreindur sem Benjamín Ólafsson.

Þar kemur jafnframt fram að ítalska lögreglan sé nú að skipuleggja leit að manninum, sem er 23 ára gamall, á landi og sjó í samstarfi við lögreglumenn sem eru hluti af áhöfn Siem Pilot.

Eins og fram kemur í norskum fjölmiðlum hefur áhöfn skipsins leitað mannsins hátt og lágt í skipinu og í nágrenni við það. Skipið var við bryggju í Catania þegar maðurinn hvarf. Samkvæmt frétt VG eru ættingjar mannsins á leiðinni til Catania sem og fulltrúi eiganda skipsins og norskur prestur. Um þrjátíu Norðmenn starfa á skipinu sem getur flutt næstum því þúsund flóttamenn í einu.

Siem Pilot hefur verið í þjónustu Frontex síðan í júní. Skipið hafði bjargað rúmlega 4.300 flóttamönnum um miðjan ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert