Björk Vilhelmsdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs, leggur til að borgarstjórn samþykki að sniðganga í innkaupum sínum vörur frá Ísrael á meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir.
Þetta kemur fram í tillögu Bjarkar sem fjallað verður um á fundi borgarstjórnar í dag. Þar mun hún jafnframt biðjast lausnar, en greint hefur verið frá því að Björk muni halda til Palestínu í sjálfboðastarf og ætli að hefja störf sem félagsráðgjafi á nýjan leik.
Hún leggur til, að borgarstjórn samþykki að Reykjavíkurborg kaupi ekki vörur frá Ísrael meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir. Innkaupadeild Reykjavíkurborgar se´falið að gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni.
Greinargerð fylgir tillögunni, en þar segir að í innkaupastefnu borgarinnar sé kveðið á um að Reykjavíkurborg skuli í innkaupum sínum taka tillit til gæða-, umhverfis- og mannréttindasjónarmiða.
„Með vísan til 5. gr. innkaupastefnu Reykjavíkurborgar er lagt til að borgarstjórn samþykki að sniðganga í innkaupum sínum vörur frá Ísrael á meðan hernám Ísraelsríkis á landsvæði Palestínumanna varir. Reykjavíkurborg sýnir með samþykkt þessarar tillögu að hún styður rétt Palestínumanna til sjálfstæðs og fullvalda ríkis innan landamæranna frá því fyrir sex daga stríðið árið 1967, í samræmi við ályktun Öryggisráðs SÞ nr. 242 og ályktun Alþingis um viðurkenningu á fullveldi og sjálfstæði Palestínu frá 29. nóvember 2011, og lætur í ljósi vanþóknun sína á kynþáttaaðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Ísrael,“ segir í greinargerðinni.
„Sniðganga af því tagi sem hér er beitt er friðsamleg aðferð til að hafa áhrif á stjórnvöld og ráðahópa í ríkjum þar sem mannréttindi eru ekki virt og alþjóðasamþykktir að engu hafðar. Andstaðan um allan heim gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku er gott dæmi um ríki þar sem sniðganga í viðskiptum og ýmiss konar samskiptum öðrum hafði veruleg áhrif. Undanfarin ár hafa sífellt fleiri einstaklingar, samtök, sveitarfélög og ríki tekið upp sniðgöngu gagnvart Ísrael, þar sem aðstæður eru um margt líkar og í Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar,“ segir ennfremur.