Engar nýjar vísbendingar hafa borist um hvarf Benjamíns Ólafssonar sem er í áhöfn norska björgunarskipsins Siem Pilot, að sögn frænda hans. „Það er eins og jörðin hafi gleypt hann,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Benjamín fór frá borði skipsins um miðja nótt á mánudag. Ekkert hefur spurst til hans síðan þá þrátt fyrir ítarlega leit og fyrirspurnir.
Móðir Benjamíns, tvær systur hans og mágur komu til bæjarins Catania á Sikiley í gærkvöldi og veita aðstoð við leitina.
Benjamín flutti ungur að árum til Noregs og hefur búið þar nánast alla sína ævi ásamt móður og systrum sínum.
Upplýsingafulltrúi norsku rannsóknarlögreglunnar, Kripos, Ida Dahl Nilssen, segir að Siem Pilot hafi átt að leggja af stað úr höfn á Sikiley í dag en brottför hafi verið frestað vegna hvarfs Benjamíns.