Víðtæk leit að Benjamín Ólafssyni, skipverja í áhöfn norska björgunarskipsins Siem Pilot, hefur engan árangur borið. Ekkert hefur spurst til hans frá því hann fór frá borði skipsins um miðja nótt á mánudag þrátt fyrir ítarlega leit á Sikiley.
Aðspurður segir frændi Benjamíns í samtali við mbl.is að það sé tilfinning fjölskyldunnar að vel sé staðið að leitinni. Móðir Benjamín, tvær systur hans og mágur komu til bæjarins Catania á Sikiley í gærkvöldi og veita aðstoð við leitina.
Benjamín, sem er 23 ára, flutti ungur að árum til Noregs og hefur búið þar nánast alla sína ævi ásamt móður og systrum sínum.
Vinnufélagar hans hafa tekið þátt í leitinni, hengt upp myndir og auglýsingar víða í bænum en enn hafa ekki borist vísbendingar um hvar hann er að finna. Siem Pilot kom til hafnar í Catania á sunnudag en skipið hefur síðan í byrjun júní sinnt verkefnum tengdum flóttamönnum á Miðjarðarhafinu á vegum Frontex, landamæraeftirlitsstofnunar Evrópusambandsins.