Gagnrýnir viðskiptabannið harðlega

Sigríður Á. Andersen er sjöundi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.
Sigríður Á. Andersen er sjöundi þingmaður Reykjavíkurkjördæmis suður.

Sigríður A. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi harðlega viðskiptabann Rússa gegn Vesturlöndum á haustfundi þings Öryggis-og samvinnustofnunar Evrópu í Úlan Bator, höfuðborg Mongólíu, í dag.

Í umræðum um efnahagslegar áskoranir ríkja á ÖSE-svæðinu vakti Sigríður athygli á mikilvægi frjálsa viðskipta þegar kemur að fæðuöryggi. Nefndi hún að fá ef nokkur ríki gætu tryggt borgurum sínum fæðuöryggi til langs tíma án frjálsra viðskipta við önnur lönd. Því væri miður að land eins og Rússland legði bann á innflutning á matvælum frá Evrópu og Bandaríkjunum, vegna aðgerða ríkjanna í tengslum við ástandið í Úkraínu. Sigríður sagði augljóst að viðskiptaþvinganir Rússlands brytu gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það væri þó ekki aðalatriðið heldur áhrif bannsins á þegna landsins. Hún hvatti ÖSE-þingið til að berjast fyrir frjálsum viðskiptum og mótmæla viðskiptabanninu, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Nikolaí Kovalev, þingmaður sendinefndar Rússland og neðri deildar rússneska þingsins, sagði Rússland á móti hvers kyns refsiaðgerðum á milli ríkja, bæði pólitískum og efnahagslegum. Rússland hefði hins vegar verið neytt til þess að bregðast við refsiaðgerðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins. Vesturlönd bæru þannig ábyrgð á minnkandi fæðuöryggi og óánægju með innflutningsbann Rússa, t.d. meðal bænda á Íslandi og í Frakklandi.

Á sama tíma hefði innflutningsbannið í raun verið Rússlandi til hagsbóta og aukið fæðuöryggi í landinu, sem væri nú farið að framleiða nýjar tegundir af matvælum. Rússland væri reiðubúið til að gera allt sem hægt væri til að koma á eðlilegum samskiptum á ný og að um leið og Vesturlönd drægju til baka refsiaðgerðir sínar mundi Rússland gera slíkt hið sama,“ segir í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka