Ekkert hefur enn spurst til íslensks skipverja af norska björgunarskipinu Siem Pilot. Síðast sást til hans klukkan 3:30 aðfaranótt mánudags í Catania á Sikiley þar sem skipið er í höfn.
Benjamín Ólafsson, 23 ára, býr í Haugasundi í Noregi og er hans nú leitað af ítölsku lögreglunni í samstarfi við rannsóknarlögregluna í Noregi en liðsmenn hennar eru um borð í Siem Pilot. Skipið er enn í höfn í Catania en áhöfn skipsins hefur verið að störfum á vegum Frontex, landamærastofnunar Evrópusambandsins, síðan í júní. Alls hefur áhöfn þess bjargað um 6.500 flóttamönnum á Miðjarðarhafi á þeim tíma.
Á vef norska ríkisútvarpsins kemur fram að áhöfn Siem Pilot hefur leitað hans bæði á landi og á sjó og hengt upp myndir af honum og auglýst eftir honum víða í Catania. Þar er haft eftir norsku rannsóknarlögreglunni að vonir standi til þess að Benjamín eigi eftir að finnast heill á húfi. Alls eru 30 í áhöfn skipsins.