„Þetta fyrirkomulag er handónýtt“

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra

Vinda þarf ofan af því kerfi sem er í kringum kjararáð og kjaradóm á sínum tíma, þar sem kjararáði er ómögulegt að uppfylla hlutverk sitt. „Það þarf að henda þessu kerfi, það er ónýtt.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á morgunverðafundi sem var haldinn af Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félags forstöðumanna ríkisstofnana. Taldi hann að stórfækka ætti þeim einstaklingum sem samningsrétturinn hefði verið tekinn af með þessu móti.

Gagnrýndi Bjarni núverandi stöðu. „Þetta fyrirkomulag er handónýtt og stjórnmálamenn eru búnir að eyðileggja það.“ Þannig væri hlutverk kjararáðs að láta þá starfsmenn sem samningsrétturinn hefði verið tekinn af fylgja launaþróun þeirra sem gegna sambærilegum störfum. Það væri ekki staðan og nefndi Bjarni að það væri fráleitt að forstjórar í fyrirtækjum sem væru í eigu ríkisins væru reglulega í þeirri aðstöðu að semja við starfsfólk sitt langt umfram eigin kjör, til að geta haldið í gott fólk.

Sagði Bjarni að tíð inngrip stjórnvalda í markmiðsákvæði laganna hefðu búið til ástand þar sem mikil gliðnun varð á kjaraþróun þeirra sem heyrðu undir kjararáð.

Í samtali við mbl.is sagði Bjarni að það væri æskilegt að breytingar yrðu gerðar á þessu kerfi á núverandi þingi eða kjörtímabili. Tiltók hann að ekki hefði tekist að mynda neina samstöðu á þingi til að gera bragabót á þessu vandamáli og því teldi hann réttu leiðina að losa fólk sem í dag heyrir undir kjararáð í stórum stíl undan afskiptum stjórnmála. „Það er stórt mál að hafa af mönnum samningsrétt með lögum,“ sagði Bjarni.

Þróun á launakjörum þessa hóps undanfarin ár er eitthvað sem ekki verður hægt að búa við til framtíðar að sögn Bjarna, en í dag heyra um 600-800 manns undir kjararáð. Segir hann hægt að „færa aftur samningsréttinn til hundruð manna sem í dag eru undir kjararáði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert