„Viðbótartryggingagjaldið sem atvinnulífið er enn að greiða til ríkisins reiknast okkur til að sé líklega nær 20 milljarðar króna á hverju ári,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Hún segir þetta vera viðbótarskattlagningu á atvinnulífið miðað við stöðuna sem er á vinnumarkaði. Tekjur ríkissjóðs vegna tryggingagjalda hafa aukist töluvert undanfarin ár eða um 49% frá árinu 2008 þegar tekjur vegna tryggingagjalda voru 53 milljarðar króna til samanburðar við 79 milljarða króna áætlun á þessu ári.
Atvinnuleysi hefur hins vegar farið minnkandi frá því sem mest var árið 2009 þegar það mældist 8%. Það hefur minnkað hratt síðustu ár og er skráð atvinnuleysi nú nálægt 3%.