Fagna lækkun tolla á matvörur

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.

Félag atvinnurekenda fagnar nýgerðu samkomulagi Íslands og Evrópusambandsins um gagnkvæma niðurfellingu og lækkun tolla á landbúnaðarvörum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu. Þar segir ennfremur að félagið hafi um árabil barist fyrir ýmsum þeim breytingum sem boðaðar séu og þrýst á um þær bæði við íslensk stjórnvöld og framkvæmdastjórn sambandsins.

„Það er afar ánægjulegt að sjá að ýmislegt af því sem við höfum barist fyrir lengi sé að verða að veruleika, eins og niðurfelling tolla af unnum landbúnaðarvörum á borð við pitsur, pasta og bökunarvörur, þótt við söknum annarra tillagna okkar eins og að innflutt jógúrt fái að njóta tollfrelsis,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA. Þá sé einnig löngu tímabært að lækka eða afleggja tolla á vörur sem sáralítið eða ekkert sé framleitt af hér á landi eins og villibráð og frönskum kartöflum.

Ólafur segir erfitt að leggja mat á ávinning neytenda af samkomulaginu, þar sem enn vanti allar tölur um tollalækkanir og rýmkun tollfrjálsra innflutningskvóta. Hann segir engan vafa á að innflutningsverslunin muni skila tollalækkununum áfram í vasa neytenda. „Það er hörð samkeppni í matvælainnflutningi og alveg klárt að neytendur munu njóta ávaxta þessa samkomulags þegar það gengur í gildi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert