Fagnar samningum um lækkun tolla

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Ég hlýt að fagna því að lækka eigi tolla á matvörum. Það er ástæða til að hvetja stjórnvöld til þess að halda áfram á sömu braut,“ segir Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna í samtali við mbl.is.

Eins og fréttavefurinn hefur greint frá tókust nýir samningar í dag um viðskipti með landbúnaðarvörur á milli Íslands og Evrópusambandsins. Samningarnir fela í sér að Ísland fellir niður tolla á yfir 340 nýjum tollskrárnúmerum og lækkar tolla á yfir 20 öðrum og sambandið gerir almennt slíkt hið sama. Þá verða allir tollar á unnar landbúnaðarvörur felldir niður nema á jógúrt.

Jóhannes segir að þarna sé stigið skref í rétta átt en enn sé töluvert í land í þessum efnum. Þarna sé um að ræða margar vörur sem vegi lítið í útgjöldum heimilanna. Eftir sem áður sé ástæða til að fagna þessu skrefi. „Þess vegna hvet ég stjórnvöld til þess að halda áfram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert