Farsími og grár bolur í eigu Benjamíns Ólafssonar, sem leitað var á Sikiley í vikunni, fundust á brautarpalli í neðanjarðarlestarkerfi í borginni Cataniu á meðan leitinni stóð. Sérstakt lögreglulið, sem stýrt hafði leitinni í þrjá daga, fann svo Benjamín um kl. 19.30 að íslenskum tíma í gærkvöldi í vörugeymslu við lestarstöð í Cataniu. Þetta kemur fram í ítölskum fjölmiðlum um málið. Norska blaðið Dagbladet segir hins vegar að Kripos, norska rannsóknarlögreglan, hafi ekki viljað greina frá því hvar Benjamín fannst.
Benjamín er skipverji á norsku björgunarskipi, Siem Pilot. Hann yfirgaf skipið um miðja nótt á mánudag og hófst víðtæk leit að honum í kjölfarið.
Í samtali við mbl.is í dag sagði fulltrúi rannsóknarlögreglunnar í Noregi að Siem Pilot myndi halda aftur til sjávar í dag. Sagði hann að ekki yrði neinn blaðamannafundur vegna málsins að svo stöddu.
Hjá skipafélaginu O.H. Meling & co, sem rekur skipið, fengust þær upplýsingar í dag að fjölskyldan kæmi til Noregs á morgun og að það liti allt vel út með Benjamín.
Skipið hefur tekið þátt í að bjarga flóttamönnum á Miðjarðarhafi undanfarna mánuði. Skipverjar Siem Pilto hafa samkvæmt upplýsingum Dagbladet tekið þátt í að bjarga mörg þúsund flóttamönnum í neyð.
Móðir Benjamíns, Ragnheiður Benjamínsdóttir, staðfesti við mbl.is í gærkvöldi að hann væri fundinn. Hún var þá stödd á Sikiley til að aðstoða við leitina.
„Það sem ég get sagt er að hann fer í læknisskoðun um borð í skipinu núna. Fyrirtækið hefur sent nýjan starfsmann til þess að hann geti snúið aftur heim til Noregs með fjölskyldu sinni einhvern næstu daga,“ hafði norska dagblaðið Verdens Gang eftir Axel Due, talsmanni norsku rannsóknarlögreglunnar, í gærkvöldi.
Due sagði að ekki væri hægt að segja meira um málið að svo stöddu og að fjölskylda Benjamíns hefði óskað eftir því að vera látin í friði vegna málsins.