Betur hefði mátt undirbúa tillögu um sniðgöngu á ísraelskum vörum áður en hún var lögð fram og samþykkt í borgarstjórn Reykjavíkur í vikunni og tengist það því að um síðustu tillögu Bjarkar Vilhelmsdóttur var að ræða. Þetta segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. Ekki fást upplýsingar um hvaða vörur er að ræða.
Líkt og fram hefur komið samþykkti borgarstjórn að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu Reykjavíkurborgar á ísraelskum vörum á meðan hernám Ísraelsríki á landsvæði Palestínumanna varir, líkt og kemur fram í fundargerð borgarstjórnar.
Fundurinn fór fram á þriðjudag í þessari viku. Þar baðst Björk, sem var fulltrúi Samfylkingarinnar í borgarstjórn, lausnar en hún hyggst halda til Palestínu í sjálfboðastarf og ætlar síðan að hefja störf sem félagsráðgjafi á ný. Hún er ásamt eiginmanni sínum virk í félaginu Ísland-Palestína.
Hvaða undirbúningur hafði farið fram þegar tillaga Bjarkar var lögð fram á fundi borgarstjórnar í vikunni?
„Þessi mál hafa verið til umræðu hér í borgarstjórn og í fleiri höfuðborgum Norðurlanda undanfarna mánuði. Formlegur undirbúningur að þessari tillögugerð fólst fyrst og fremst í því að fara yfir lagalega þætti sem snúa að innkaupastefnunni og framfylgd þessa ákvæðis í henni að virða mannréttindasjónarmið. En útfærslan er auðvitað eftir,“ segir Dagur.
Með tillögunni sendir borgarstjórn Reykjavíkur sterk skilaboð, skilaboð sem víða hefur verið brugðist við í heiminum. Hefði ekki verið eðlilegt að búið væri að útfæra þetta nánar áður en tillagan var lögð fram?
„Jú, kannski má alveg segja það. Þetta tengist auðvitað líka því að þetta er lokatillaga Bjarkar sem er að hætta í borgarstjórn þannig að við gerðum þetta svona,“ segir Dagur.
Þannig að allajafna hefði tillagan ekki verið sett fram í svona miklum flýti?
„Ég get kannski ekki sagt að þetta hafi verið sett fram í flýti, þetta hefur mjög víða verið til umræðu og skoðunar. Við munum flýta okkur hægt í að útfæra þetta og horfa meðal annars til umræðunnar í Kaupmannahöfn þar sem sambærileg tillaga var samþykkt til skoðunar í vor. Þar voru landtökubyggðirnar sérstaklega tilgreindar. Við þurfum auðvitað að vanda okkur í þessu eins og öðru,“ segir Dagur.
Dagur segir að við fyrstu sýn sé um fáar vörur að ræða og þannig muni sniðgangan ekki hafa veruleg áhrif á innakaup borgarinnar.
Hvaða vörur eru þetta sem um ræðir?
„Við fyrstu skoðun er það sáralítið. Að því leyti er þetta fyrst og fremst táknræn yfirlýsing og við erum þarna, eins og fjölmargir aðrir með í innkaupastefnunni, með almennt ákvæði um að horfa meðal annars til mannréttindasjónarmiða. Böndin beinast ekki að ísraelskum vörum almennt, heldur þá vörum sem tengjast hernumdu svæðunum og landtökubyggðum,“ segir Dagur.
„Ef þú horfir til Norðurlanda hafa bæði bankar og norskir olíusjóðir og fleiri verið að taka skref vegna sambærilegra markmiða í þeirra fjárfestinga- og innkaupareglum um að hætta viðskiptum eða fjárfestingum sem tengjast þessum svæðum. Röksemdin þar að baki er að þessar landtökubyggðir stangist á við alþjóðalög og tengjast þannig mannréttindabrotum.“
„Evrópusambandið hefur verið með til skoðunar að vörur frá þessu svæði verði sérmerktar þannig að það er eitt af því sem við munum skoða,“ segir Dagur, aðspurður hvort hann geti tilgreint nánar um hvaða vörur er að ræða og við hvað verði miðað við við sniðgönguna.
Hvenær má gera ráð fyrir að útfærslan liggi fyrir?
„Ég treysti mér ekki til að segja það.“
Þið hafið væntanlega þegar hafið undirbúning?
„Það verður farið í það,“ segir Dagur.
„Ef það kemur í ljós að eitthvað tiltekið fyrirtæki tengist barnaþrælkun þá segir innkaupastefnan að það eigi að horfa til mannréttindasjónarmiða og þá hljótum við að áskilja okkur rétt til að kaupa ekki vörur af því fyrirtæki,“ segir Dagur en í bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata segir að með samþykkt tillögunnar séu sett fordæmi fyrir sambærilegum þrýstingi á aðrar ríkisstjórnir sem ekki virða mannréttindi eða fullveldi annarra ríkja.
„Það er verið að setja þrýsting með því að kaupa ekki vörur sem tengjast mannréttindabrotum. Barnaþrælkun hefur komið í ljós í Bangladess og í sumum heimshlutum og verið mikið í umræðunni. Þetta snýr auðvitað ekki bara að borginni, þetta snýr að okkur sem einstaklingum og bara fyrirtækjum almennt og fjárfestingum. Það er í auknum mæli gerð krafa um siðferðileg viðmið en ekki fjárhagsleg þegar verið er að kaupa, hvort sem það er matvara í búðum eða vörur í tískuverslunum, eða hvað það er og ég held að þetta sé bara hluti af þróun sem hefur verið undanfarin ár og muni bara halda áfram,“ segir Dagur
Gæti komið fram önnur tillaga í borgarstjórn þar sem annað land, ríkisstjórn eða fyrirtæki er tekið fyrir?
„Ég lít svo á að þarna séum við að standa með mannréttindum hvar sem er í heiminum eins og við höfum gert gagnvart Kína, eins og við höfum gert gagnvart Rússlandi og málefnum samkynhneigðra þar. Á undanförnum árum hefur borgarstjórn tekið skýra afstöðu með mannréttindum og friði allstaðar í heiminum og það er auðvitað kjarni málsins í heiminum en ekki nákvæmlega hver á í hlut hverju sinni.“