Flumbrugangur hjá borginni

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra. AFP

„Þetta er greinilega hugsað til þess að afla sér vinsælda, illa undirbúið og afleiðingarnar algerlega vanmetnar,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra í samtali við mbl.is vegna ákvörðunar meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkurborgar að fela skrifstofu borgarstjóra í samvinnu við innkaupadeild Reykjavíkurborgar að undirbúa og útfæra sniðgöngu borgarinnar á ísraelskum vörum.

„Við höfum í allan dag verið að árétta að þarna sé engan veginn um að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar. Ég hef látið þess getið á Alþingi að ég væri ekki reiðubúinn að beita mér fyrir slíku á alþjóðavettvangi þannig að Reykjavíkurborg hefur mátt vera vel kunnugt um að þessi ákvörðun væri í andstöðu við utanríkisstefnu landsins,“ segir hann ennfremur. Einfaldlega sé um að ræða flumbrugang hjá meirihlutanum í borgarstjórn.

Gunnar Bragi segir að fundað verði með sendiherra Ísraels þegar hann komi til landsins í næsta mánuði þar sem stefna stjórnvalda verði áréttuð. Utanríkisráðuneytið hafi verið í sambandi við sendiherrann og haldið honum upplýstum um stöðuna. „Sem höfuðborg ber Reykjavík ákveðna ábyrgð að mínu áliti til þess að fylgja meginlínum íslenskrar utanríkispólitíkur. Mér þykir Reykjavíkurborg hafa gert gríðarleg mistök hérna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert