Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir líklegt að verð á ákveðnum matvörum, á borð við franskar kartöflur, lækka um tugi prósenta í kjölfar breytinga á tollum á landbúnaðarafurðir. Gunnar Egill Sigurðsson, forstöðumaður hjá Samkaupum, segir breytingarnar munu leiða til meira vöruúrvals á Íslandi.
„Þarna eru mjög jákvæðar breytingar að eiga sér stað. Hins vegar á eftir að taka mjög stór skref í þessum efnum. Okkur sýnist sem breytingarnar nái ekki til allra unnra landbúnaðarvara. Samkvæmt mínum upplýsingum hafa breytingarnar þannig ekki áhrif á skinku, parmesanost og pylsur almennt, svo dæmi sé tekið. Þetta eru ef til vill minni breytingar en væntingar stóðu til varðandi unnar landbúnaðarvörur,“ segir Finnur.
Finnur segir aðspurður að líklega muni verð á ákveðnum vörum, á borð við franskar kartöflur, lækka um tugi prósenta.
Spurður hvort breytingarnar muni með tímanum hafa marktæk áhrif á vöruúrval í til dæmis Bónusverslunum segir Finnur að áherslan verði fyrst og fremst á að lækka verð á vörum sem nú eru á boðstólum.
„Það munu þó skapast aukin tækifæri í innflutningi. Það er alveg klárt,“ segir Finnur.
Hefði gjarnan mátt gerast fyrr
Jón Björnsson, forstjóri Festi, sem rekur Krónuverslanirnar, segir tollakerfið flókið. Það taki því tíma að átta sig á áhrifum breytinganna.
„Við erum að bíða eftir nákvæmum upplýsingum um í hvaða flokkum er verið að fella niður tolla og í hvaða flokkum er verið að lækka tolla. Tollskráin er ekki einföld og vara eins og pasta getur t.a.m. verið í 25 tollflokkum. Eins eru tollarnir sem verið er að lækka eða fella niður misjafnir. Sumt er í prósentum og oft á bilinu 10-30%.
Sumt er í krónum á hvert kíló og sumt er bæði í prósentum og kílóum. Þá eru lagðir á almennir tollar, ESB-tollar, EFTA-tollar og svo framvegis. Að öllu þessu slepptu eru þetta mjög jákvæðar fréttir fyrir íslenska neytendur. Það er ljóst að þetta mun lækka vöruverð, gera Ísland samkeppnisfærara og bæta vöruúrval. Þess væri náttúrlega óskandi að þetta væri að taka gildi fyrr,“ segir Jón.
Hvert prósentustig þýðir 1,3-1,4 milljarða
Gunnar Egill Sigurðsson, forstöðumaður verslunarsviðs hjá Samkaupum, segir breytingarnar munu leiða til lægra matvöruverðs á Íslandi. Hversu mikil áhrifin verða eigi eftir að koma í ljós. Þá muni breytingarnar leiða til aukins vöruúrvarls, enda verði margar innfluttar vörur samkeppnishæfar í verði. Súkkulaði, frosnar pítsur og franskar kartöflur séu dæmi um slíkar vörur.
„Við fögnum þessum breytingum. Þær eru í takt við það sem við höfum barist fyrir. Þarna eru stórir vöruflokkar og það er spennandi að sjá hversu lækkunin verður mikil. Það á eftir að skýrast hver áhrifin verða á innlenda framleiðslu. Menn þurfa að vera tilbúnir í þá samkeppni. Breytingarnar hafa væntanlega líka áhrif á innlenda framleiðendur, enda þurfa þeir að flytja inn hráefni til landsins.“
Gunnar Egill bendir á að matvöruverslun á Íslandi velti árlega 130-140 milljörðum. Því muni um hvert prósentustig í lægra matvöruverði.