Samningurinn „tvíeggja sverð“

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna. Ljósmynd/Bændasamtökin

Á fimmtudaginn var undirritaður samningur milli Evrópusambandsins og Íslands um viðskipti með landbúnaðarvörur. Tollar á ýmsar vörur munu lækka eða falla alveg niður auk þess sem tollkvótar verða auknir til muna.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir jákvætt að fá aukinn markaðsaðgang fyrir bæði skyr og lambakjöt á markaði Evrópusambandsins, en þetta sé þó „tvíeggja sverð.“ Segir hann Bændasamtökin hafa talað mikið fyrir því að fella ekki niður tolla einhliða og að tvíhliða samkomulag sem þetta sé til fyrirmyndar.

Mynd/mbl.is

Þessi mikla breyting getur þó haft neikvæðar afleiðingar fyrir einhverjar búgreinar. „Ljóst að þetta verður erfitt fyrir sumar búgreinar, til dæmis alífuglarækt og svínaræktina,“ segir Sindri. Á móti komi að heilmikil sóknarfæri séu í útflutningi á skyri, þó að innflutningur á osti geti dregið úr ávinningi bændastéttarinnar af því. „Samningarnir eru um margt jákvæðir en rýra samkeppnisstöðu annarra,“ segir hann.

Sindri segir að samskipti við Bændasamtökin hefðu mátt vera meiri á samningstímabilinu, en að bændur muni ekki leggja árar í bát við þessar fréttir. „Það er engin uppgjöf í okkur. Hefðum þó viljað hafa meira samráð við gerð samninga,“ segir hann.

Mynd/mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert