Ingimundur Bergmann, formaður Félags kjúklingabænda, gagnrýnir hvernig staðið var á samningunum um viðskipti með landbúnaðarvörur milli Íslands og Evrópusambandsins sem undirritaður var á miðvikudaginn.
„Þetta er eitthvað baktjaldamakk. Það var látið í veðri vaka við okkur að þetta væri í undirbúningi, að þetta væri hugsanlega inni í myndinni, en ekki að málið væri komið á þetta stig.“
Hvaða áhrif mun þetta hafa á þína félagsmenn?
„Það er ekki ljóst. Við erum að framleiða kjúklinga við miklu strangari skilyrði en löndin sem á að fara að flytja inn frá; ég geri ráð fyrir að það séu Evrópulöndin. Reglurnar hér eru mun strangari en víða í Evrópu. Þá bæði varðandi hreinleika afurðanna og þéttleika fugla í húsum, og svo framvegis.“
Mun þetta hafa áhrif á ykkar afkomu?
„Það hlýtur að gera það. Ég geri ráð fyrir að það sé inn í myndinni að aflétta þessum séríslensku reglum. Ég get ekki ímyndað mér annað. Það hlýtur að vera það fyrsta sem gert verður, þannig að hægt sé að gera íslensku vöruna samkeppnisfærari.“
Ingimundur bendir á að rekstrarumhverfið á Íslandi sé allt mun erfiðara í Evrópulöndum. „Grunnkostnaður við framleiðsluna er miklu meiri hér,“ segir Ingimundur og nefnir sem dæmi að á Íslandi séu nú „okurvextir“.
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda, segir að áhrif af samningnum geti verið mikil hér á landi. „Það er ekki búið að leggja mat á markaðsáhrifin, en þau gætu orðið veruleg því um er að ræða umtalsvert hlutfall framleiðslu hér.“ Hann bendir á að meðan mögulegur útflutningur Íslendinga til ESB sé innan við einn þúsundasti af framboðinu þar og hafi ekki áhrif á verð, þá sé tollkvótinn fyrir osta sem hægt verður að flytja hingað inn 10% af ostamarkaðinum og nautakjötskvótinn 25% af innanlandsframleiðslu.
„ESB fær að selja umtalsvert hlutfall meðan við förum með dropateljara út,“ segir hann, en bætir við að ótímabært sé að tjá sig strax um heildaráhrifin.