Ísgerðirnar búast við meiri innflutningi

Helmingur starfsmanna Kjöríss er með 20 ára starfsreynslu.
Helmingur starfsmanna Kjöríss er með 20 ára starfsreynslu. Morgunblaðið/Golli

Valdimar Hafsteinsson, framkvæmdastjóri Kjöríss, reiknar með að breytingar á tollum á innfluttar matvörur muni leiða til aukins innflutnings á ís á næstu árum. Á móti komi að innlendur framleiðslukostnaður kunni að lækka. Framkvæmdastjóri Emmessís reiknar einnig með auknum innflutningi.

Eins og fram kemur í Morgunblaðinu í dag mun tollur í flokki 2105 á ís lækka úr 30% í 18% og 110 króna kílótollur fara niður í 66 krónur.

„Það verður að fylgja þróuninni, eins og gengur,“ segir Valdimar.

„Vandamál okkar er að tollar á helsta hráefni okkar, undanrennuduft, eru náttúrulega þannig að okkur er gert það ókleift að flytja það inn. Meðan svo er hljótum við að hafa einhverja vernd á vörum sem nota þetta sem aðalhráefni. Þar hefur hnífurinn staðið í kúnni.“

Aðeins 10%-15% af heildarsölunni

„Við munum aðlaga okkur að þeim aðstæðum sem okkur eru búnar. Við erum að flytja inn ís frá Unilever sem er stærsti ísframleiðandi í heimi. Það fyrirtæki á flestar stærstu ísgerðir í heiminum. Það er erfitt að keppa við slíka risa. Við ákváðum því að vera vinir þeirra og flytjum því inn þeirra vörur. Við munum sjá til hvernig verð mun þróast í kringum þetta og annar innflutningur hjá öðrum. Þess ber að geta að innflutningur er aðeins 10-15% af okkar heildarsölu,“ segir Valdimar.

Meðal ísvara sem Kjöríss flytur inn er hið heimsþekkta vörumerki Ben & Jerry‘s.

Innflutningurinn mun hafa áhrif á Emmessís

Ragnar Birgisson, framkvæmdastjóri Emmessís, segir ljóst að verð á innfluttum ís muni lækka við breytingarnar.

Það geti haft áhrif á eftirspurnina. Markaðshlutdeild innflutts íss sé þó ekki mikil.

„Við erum ekki að flytja inn ís. Hins vegar eru aðrir að flytja inn töluvert af ís og það mun hafa áhrif á okkur. Þá hefur evran og dollarinn verið að lækka. Það hefur líka áhrif,“ segir Ragnar.

Hann bendir á að framleiðslukostnaður innlendrar framleiðslu kunni líka að lækka með því að verð á innfluttum hráefnum lækkar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert