Að kunna að lesa viðinn skiptir máli

Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður
Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður mbl.is/Golli

Hann smíðar og gerir við strengjahljóðfæri og skiptir líka um hár í bogum. Hann hefur verið heillaður af tréskurði alveg frá því hann var unglingur. Hann skipti fyrir fimmtán árum úr húsasmíði í hljóðfærasmíði og sér ekki eftir því. Hann kann vel við nákvæmnisvinnuna sem liggur að baki hljóðfærasmíði.

Ævintýraþrá var kveikjan að því hjá mér að fara út í það að læra fiðlusmíði. Mig langaði að færa mig inn á nýjar brautir, en ég er lærður húsasmíðameistari og var til margra ára með mitt eigið verktakafyrirtæki. En Erlingur Jónsson kynnti mig fyrir tréskurði þegar ég var í gaggó og ég hef allar götur síðan verið heillaður af útskurði og fíngerðri smíðavinnu. En á þeim árum sem ég var að læra húsasmíðina, í kringum 1980, þá þótti nú ekki efnilegt að fara í hljóðfærasmíði, það þótti dund sem fólk gerði í hjáverkum,“ segir Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður sem undanfarin fimmtán ár hefur smíðað og gert við strengjahljóðfæri.

Flutti til Englands til að læra

„Árið 1997 ákváðum við hjónin að breyta til og við fluttum til Englands þar sem ég fór að læra fiðlusmíði. Ég lagði áherslu á strokhljóðfæri í mínu námi og kom heim um aldamótin 2000 og fór að vinna við þetta á fullu, bæði við smíðar og viðgerðir. Ég var fyrst með verkstæði í Kópavogi og þetta hefur undið upp á sig síðan. Reyndar fór ég aðeins inn í húsasmíðina aftur um tíma, en hugurinn leitaði alltaf aftur í hljóðfærin og eftir að við Gunnar Örn rafgítarsmiður ákváðum að leigja saman aðstöðu hér í Brautarholtinu, þá varð ekki aftur snúið,“ segir Jón sem unir hag sínum vel með kollegum sínum á verkstæðinu, þeim Gunnari Erni Sigurðssyni sem smíðar og gerir við rafmagnsgítara og Ylju Linnet sem sér um hljóðfæraviðgerðir.

Tvö hundruð klukkutímar liggja að baki einni víólu

Jón Marinó er að gera við selló þegar blaðamann ber að garði, enda tekur hann að sér að gera við allar tegundir strengjahljóðfæra. Tveir kontrabassar halla sér upp að borði hans en þá segist hann ekki hafa smíðað, hann hafi ekki enn lagt í það, enda taki það þrjá til fjóra mánuði.

„Hljóðfærasmíði er skemmtilegt handverk, en gríðarleg nákvæmnisvinna liggur þar að baki. Það liggja til dæmis rúmir tvö hundruð klukkutímar að baki smíði á einni víólu. Ferlið er fimm vikur, fjórar vikur fara í grófsmíðina, að koma hljóðfærinu saman og gera það klárt undir lökkun, en síðan er mikil vinna í lökkuninni enda eru tíu til tólf lög af lakki á einni víólu. Fyrst þarf að grunna til að loka viðnum, en lakkið má ekki fara inn í viðinn því það stífar viðinn og skemmir tóninn. Síðan koma þrjár til fimm umferðir af lit og þrjár til fjórar umferðir af glæru lakki í lokin.“

Jón Marinó segir að sér finnist gaman að smíða víólur, þær séu í sérstöku uppáhaldi hjá honum.

„Víólan er aðeins stærri en fiðlan, hún er strengd upp eins og sellóið og hún er í annarri tóntegund en fiðlan. Ég er sérlega ánægður með að einleikur á víólu er orðinn miklu algengari en áður var.“ Jón lætur ekki duga að smíða fiðlur og víólur, hann hefur einnig smíðað nokkra kassagítara undanfarið.

Góður tónn þarf að vera í viðnum, hann þarf að hringja

Hann segir að viðartegundin skipti miklu máli þegar kemur að því að velja efni til að smíða úr hljóðfæri.

„Í fiðlu er alltaf notaður hlynur í bak, hliðar og háls, en greni í framhlið og íbenholt í gripbretti. Vegna þess að harðviður þarf að koma á móti mjúkvið svo tónn hljóðfærisins berist út að framan. Framhliðin er mikilvægasti parturinn, hún er kúpt og þar verður víbringurinn til sem myndar hljóðið, og því skiptir miklu máli að vanda sig við smíðina. Það skiptir líka miklu máli að vera með rétta þyngd. Þegar maður er búinn að skera F-holu í framhliðina og setja bassabjálka innan í, þá er gott að framhliðin vigti 98-100 grömm. Það skiptir semsagt máli að kunna að lesa viðinn. Viður er mismunandi gljúpur og maður vill helst hafa mjög þéttan við í fiðlunum. Ef viðurinn hefur sprottið hratt þá er langt á milli árhringja í honum og hann er léttur, en ef hann er hægsprottinn þá er afar þétt á milli árhringja og hann er þyngri, meiri massi í honum, sem hentar vel í fiðlusmíð. Og síðast en ekki síst þarf að vera góður tónn í viðnum, hann þarf að hringja,“ segir Jón Marinó og bætir við að vissulega sé nauðsynlegt fyrir fiðlusmið að hafa tóneyra.

Hljóðfærin eins og afkvæmi

„Ákveðin element þarf að hafa í huga við smíði á víólu og fiðlu, viðarplöturnar mega ekki vera of þunnar og það þarf að vera laus hringjandi í plötunni. Við val á viðnum banka ég og hlusta á hvað er í gangi og hvernig víbringurinn dreifist um plötuna. Ég er með litla hefla til að hefla innan úr ef ég er ekki ánægður með tóninn í viðnum. Fyrst klára ég úthliðar hljóðfærisins en stilli svo allt innan frá.“

Jón segir það sem betur fer hafa aukist að fólk láti handsmíða fyrir sig hljóðfæri.

„Flestir minna viðskiptavina sem kaupa af mér hljóðfæri eru nemendur í tónlist og það er góð tilfinning að vita af hljóðfærunum með langt framhaldslíf í höndum tónlistarfólks. Svo er alltaf eitthvað um lengra komna tónlistarmenn, þegar ég hafði nýlokið við að smíða víólu snemma á þessu ári, þá kom hingað víóluleikarinn Martin Frewer og prófaði hana. Hann var meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands en spilar núna með tríói sem þessa dagana er að ferðast um Bretland og Ítalíu í tónleikaferð. Ég bauð honum að taka víóluna með sér heim yfir helgi og prófa hana almennilega. Hann kom strax eftir helgina og sagðist vilja kaupa víóluna, hann var svo viss að hann skildi hana eftir heima hjá sér. Þannig hefur þetta oftast verið hjá mér, um leið og ég klára hljóðfæri þá selst það fljótt.“

Hljóðfæraverkstæðið er í Brautarholti 22 í Reykjavík.
Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður
Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður Morgunblaðið/Golli
Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður
Jón Marinó Jónsson fiðlusmiður Morgunblaðið/Golli
Jón Marinó Jónsson hljóðfærasmiður
Jón Marinó Jónsson hljóðfærasmiður Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Jón Marinó Jónsson hljóðfærasmiður að störfum
Jón Marinó Jónsson hljóðfærasmiður að störfum Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert