Fara fram á íhlutun bankaráðs

Frá fiskvinnslu Samherja á Dalvík.
Frá fiskvinnslu Samherja á Dalvík. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Stjórn Samherja hf. hefur óskað eftir því að bankaráð Seðlabanka Íslands hlutist til um að „fram fari athugun á stjórnsýslu bankans, bankastjórnar og annarra starfsmanna, að því er snertir gjaldeyriseftirlit, einkum og sér í lagi í tengslum við húsleit, rannsókn, samskipti, kærur og fjölmiðlaumfjöllun af hálfu Seðlabanka Íslands um málefni Samherja“.

Í bréfi stjórnarinnar til bankaráðs segir m.a. að Seðlabankanum hafi „láðst að afhenda“ gögn þegar eftir þeim var óskað og veitt rangar upplýsingar þegar mál Samherja gegn bankanum vegna synjunar um aðgang að upplýsingum var til umfjöllunar hjá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Þá segir einnig að Seðlabankinn og seðlabankastjóri hafi ítrekað lýst því yfir í fjölmiðlum að „lagaklúðri“ væri um að kenna að embætti sérstaks saksóknara hefði fellt niður ýmis gjaldeyrismál sem Seðlabankinn hefði kært, m.a. á hendur forsvarsmönnum Samherja. Seðlabankastjóri hafi heldur ekki verið samkvæmur sjálfum sér í yfirlýsingum um á hvers ábyrgð húsleit hjá Samherja og fleirum var.

„Að lokum er rétt að benda á óviðeigandi viðbrögð og ummæli seðlabankastjóra í kjölfar niðurfellingar embættis sérstaks saksóknara á málinu. Embættið byggði þá niðurstöðu á því, eftir tveggja ára rannsókn, að ekkert væri að finna í gögnum málsins, sem benti til þess að refsiverður verknaður hefði verið framinn og því útilokað að til höfðunar sakamáls gæti komið. Þrátt fyrir skýra afstöðu embættisins þess efnis að gögn og atvik málsins bentu ekki til refsiábyrgðar virðist sem seðlabankastjóri lýsi beinlínis yfir sekt málsaðila í Samherjamálinu opinberlega, m.a. í Morgunblaðinu hinn 14. september sl., með því að segja þá „sleppa vegna lagaklúðurs“,“ segir undir lok bréfsins.

„Að mati stjórnar Samherja hf. hefur mál þetta varpað ljósi á alvarlegar brotalamir í stjórnsýslu og starfsemi Seðlabankans, sem og seðlabankastjóra sjálfs, í gjaldeyrismálum.“

Hér er að finna bréfið í heild.

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert