Forsætisráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um menningarminjar, nr. 80/2012, á yfirstandandi þingi. Verði frumvarpið að lögum fengi forsætisráðherra heimild til þess að taka mannvirki og lönd eignarnámi í þeim tilgangi að friðlýsa þau. RÚV greindi frá þessu í kvöld.
Markmiðið frumvarpsins er að tryggja friðlýsingu menningarminja. Ráðherra myndi ákveða friðlýsingu samkvæmt tillögum frá Minjastofnunar Íslands verði frumvarpið að lögum.
Í frumvarpinu segir að menningarminjar teljist vera ummerki um sögu þjóðarinnar, svo sem fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripir og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og bátar, samgöngutæki, listmunir og nytjahlutir, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lög þessi ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu.
Í 10. grein tillögunnar segir: „Ráðherra er heimilt að taka eignarnámi lönd, mannvirki og réttindi til að framkvæma friðlýsingu samkvæmt lögum þessum. Um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun bóta fer eftir ákvæðum laga um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.“
Breytingatillagan í heild sinni